Forstjóri Icelandair Group segir að stefnt sé að því að ljúka samningum við fimmtán lánardrottna félagsins fyrir lok vikunnar. Enn sé stefnt að því að ljúka hlutafjárútboði í næsta mánuði.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að samþykkt kjarasamnings við flugfreyjur sé mikilvægur liður í endurskipulagningu félagsins. Hann segir enn stefnt að því að ljúka samningum við fimmtán lánardrottna fyrir lok vikunnar. Markmiðið sé enn það að ljúka samningum við helstu hagsmunaaðila, leigusala og fleiri áður en júlímánuður er úti. Þá sé stefnt að því að að ljúka fyrirhuguðu hlutafjárútboði í ágúst.
Þetta kemur fram í viðtali við Boga Nils í Morgunblaðinu í dag.
Icelandair tapaði 331 milljón dala á fyrstu sex mánuðum ársins sem samsvarar tæpum 45 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Tapið er að stórum hluta rakið til kórónuveirufaraldursins.
Uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung var birt síðdegis í gær og á þeim mánuðum nam tap félagsins 12,3 milljörðum króna eða 90,8 milljónum dala.
Á öðrum ársfjórðungi, sem er tímabilið apríl-júní, dróst framboð á farþegaflugi saman um 97 prósent og farþegum fækkaði um 98 prósent, segir í uppgjöri félagsins. Eigið fé þess nam 151,2 milljörðum króna í lok júní og var eiginfjárhlutfall félagsins ellefu prósent. Þá nam lausafjárstaða félagsins 21,3 miljörðum króna í lok júní eða 152,5 milljónum dala.