„Það er ekki tilviljun að við boðum til þessa upplýsingafundar í dag,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri við upphaf upplýsingafundar almannavarna og landlæknis í dag og rifjaði upp að í síðustu viku hafi verið ákveðið að hætta með þá í bili þar sem allt virtist á réttri leið. „Það að við séum með þennan fund er vegna þess að við teljum að þjóðin þurfi að fá mikilvægar upplýsingar. Þessir fundir eru bara á hættutímum og við erum á hættulegu augnabliki.“
24 eru með virk smit á landinu núna og í einangrun. „Þetta er tala sem við höfum ekki séð síðan 6. maí og sáum fyrst 4. mars,“ sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, er hún fór yfir stöðu faraldursins. Af þessum 24 hafa fjórtán smitast hér á landi. Þá hefur komið upp hópsýking á Akranesi þar sem sjö samstarfsmenn hafa sýkst. Enn er smitrakning í gangi. Um 170 eru nú í sóttkví en Kamilla sagði viðbúið að þeim ætti eftir að fjölga.
„Við þurfum að fara vel yfir allar þær reglur, viðmið og leiðbeiningar sem við erum að vinna með í dag,“ sagði Kamilla.
Efla á sýnatöku og skima fyrir veirunni í kringum þá hópa sem hafa greinst með smit en einnig af handahófi og mun Íslensk erfðagreining veita aðstoð við þá skimun
„Það að við séum hérna enn á ný á upplýsingafundi það minnir okkur á það að það er fjarri því að þessi veira sé farin,“ sagði Alma Möller landlæknir. Hún benti á að yfirvöld hefðu alltaf sagt að hafa þyrfti allar áætlanir í sífelldri endurskoðun. „Það er vissulega áhyggjuefni að við séum að fást við smit frá mismunandi uppruna samtímis,“ sagði hún. Benti hún á að fleiri lönd væru að fást við hópsýkingar þessa dagana.
Skýringarnar eru nokkrar. Búið er að létta á fjöldatakmörkunum og hömlum og fólk er farið að ferðast á ný. „Okkur grunar að flest þessi smit komi erlendis frá,“ sagði Alma. Sem betur fer væri enginn alvarlega veikur hérlendis og það á einnig við um önnur lönd, m.a. Spán. Hvað skýri það sé óvíst en Alma benti á að meira væri skimað núna og að fleiri ungir einstaklingar hefðu greinst en í vetur. Óvíst sé hvort þetta sé til marks um að veiran sé veikari. „Vegna stöðunnar hérlendis þar sem við erum að sjá samfélagslegt smit þá þurfum við að vera mjög á verði gagnvart einkennum og láta taka sýni við minnsta grun.“
Þeir sem hafa greinst nýverið hafa verið með væg einkenni; hita, höfuðverk, slappleika og fleira. Einnig sagði Alma mikilvægt að vera vakandi fyrir sjaldgæfari einkennum; skyndilegt tap á lyktarskyni til dæmis. Finni fólk fyrir einkennum er mjög mikilvægt að fólk haldi sig til hlés, fari í sýnatöku og haldi sig heima þar til neikvætt svar liggur fyrir. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf þegar í gær að bæta aðgengi að sýnatöku og því ætti ekki að vera nein bið á að komast í sýnatöku.
Alma var spurð út í birgðir á sýnatökupinnum og sagði hún að þeir væru vissulega ekki ótakmörkuð auðlind. „En við höfum ekki verið í vandræðum og sjáum ekki fram á það í bili en auðvitað er þetta eitthvað sem þarf að vaka yfir.“
Sagði hún alla í heilbrigðiskerfinu í viðbragðsstöðu ef á þyrfti að halda.
Sigríður Björk sagði að nú skipti mestu máli að við værum öll meðvituð og gættum varúðar. Allir þyrftu að rifja upp allt það sem við lærðum í vetur um persónulegar sóttvarnir. Veiran væri bráðsmitandi en með skynsemi og samviskusemi væri hægt að draga úr hættu á frekari útbreiðslu.
Lokaorð fundarins átti ríkislögreglustjóri: „Við náðum að ráða niðurlögum veirunnar í vor og við getum reynt að gera það aftur. Og ég hef trú á því að það takist. Við skulum fara varlega og vera góð hvert við annað.“