Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja núgildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum til 18. ágúst. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns. Opnunartími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og heimilt að hafa opið til 23.00 á kvöldin.
Í ljósi þess að á undanförnum dögum hafa innflutt smit greinst hér í vaxandi mæli og dreifing á COVID-19 sjúkdómnum hefur orðið innanlands telur sóttvarnalæknir að fara þurfi með gát varðandi tilslakanir á fjöldatakmörkum og opnunartíma skemmti- og vínveitingastaða.
Þann 17. júlí lagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til að fjöldatakmörkunum vegna COVID-19 yrði breytt úr 500 í 1.000 einstaklinga þann 4. ágúst og að opnunartími skemmti- og vínveitingastaða yrði rýmkaður til kl. 24:00. Samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins var ákveðið að þessar breytingar myndu taka gildi eins og lagt var til.
„Á undanförnum dögum hefur orðið sú breyting á faraldsfræði COVID-19 hér á landi að innflutt smit hafa greinst hér í vaxandi mæli og dreifing hefur orðið innanlands,“ skrifar Þórólfur í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra. „Enginn hefur hins vegar veikst alvarlega og enginn hefur lagst inn á sjúkrahús. Um 200 einstaklingar hafa þurft að sæta sóttkví vegna þessara smita.
Í ljósi þessa þá tel ég að fara þurfi með gát varðandi ofangreindar tilslakanir á fjöldatakmörkunum og opnunartímatíma skemmti- og vínveitingastaða svo útbreiðsla faraldursins nái sér ekki frekar á strik.“
24 virk smit eru nú hér á landi. Um helmingur þeirra er innanlandssmit.
Heilbrigðisráðherra hefur sem fyrr segir fallist á tillögu sóttvarnalæknis og verður framlenging á núverandi auglýsingu birt á næstu dögum í Stjórnartíðindum og mun hún gilda til 18. ágúst.