Töluverð hreyfing er á fylgi flokka á milli mánaða samkvæmt nýrri könnun MMR, sem birt var í dag. Píratar mælast nú næst stærstir, bæta við sig rúmum tveimur prósentum og mælast nú með 15,4 prósent fylgi en Samfylkingin tapar yfir þremur prósentum og mælist með 13,1 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur sem fyrr, með 24 prósent fylgi sem er nær hið sama í síðustu könnun MMR, sem gerð var 19. júní.
Í kjölfar þessara þriggja flokka koma Vinstri græn með 10,8 prósent fylgi sem er nær hið sama og flokkurinn mældist með í júní og þar á eftir er Framsóknarflokkurinn með 8,6 prósent fylgi. Flokkurinn mælist með tveimur og hálfu prósentustigi meira en í síðustu könnun, er fylgið mældist 6,1 prósent.
Framsókn mælist því stærri en bæði Miðflokkurinn og Viðreisn, sem eru með 8,4 prósent fylgi. Miðflokkurinn bætir við sig tæpu hálfu prósentustigi á milli kannana en Viðreisn tapar rúmu einu og hálfu prósentustigi.
Sósíalistar yfir 5 prósent
Fylgi Sósíalistaflokksins fer yfir fimm prósent þröskuldinn í þessari nýju könnun MMR, en fylgi flokksins mældist 3,5 prósent í júní. Flokkur fólksins mælist með 4 prósent fylgi, en mældist með 5,4 prósent síðast.
Rúm tvö prósent aðspurðra sögðust ætla sér að kjósa aðra flokka, ef tækifæri til þess að kjósa gæfist í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst
Samkvæmt könnuninni jókst mældur stuðningur við ríkisstjórnina um tæpt prósentustig á milli mánaða, en 47,7 prósent aðspurðra sögðust styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Stuðningur við ríkisstjórnina er því rúmum fjórum prósentum meiri en samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, en það er nú 43,4 prósent í þessari nýju könnun og eykst um rúm tvö prósentustig frá því í júní. Samanlagt fylgi Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar mælist til samanburðar 36,9 prósent, en var 39,5 prósent í síðustu könnun MMR.
Könnunin var framkvæmd dagana 23. til 28. júlí, með netkönnun í þýði álitsgjafa MMR, sem valdir eru þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega sametningu þjóðarinnar á hverjum tíma. 951 einstaklingur svaraði könnuninni.
Samtals voru 78,7 prósent sem gáfu upp afstöðu til flokka, en aðrir kváðust óákveðnir (6,7 prósent), myndu skila auðu (6,9 prósent), myndu ekki kjósa (2,7 prósent) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (5,1 prósent).
Myndin sýnir niðurstöðu könnunar að viðbættum efri og neðri vikmörkum miðað við 95% öryggisbil ásamt samanburði við síðustu kannanir þar á undan.