Alls nam tap Landsbankans 3,3 milljörðum á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs hagnað á sama tímabili í fyrra.Árshlutauppgjör bankans var birt í dag en á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður bankans 341 milljón króna.
Útlán bankans til einstaklinga og fyrirtækja jókst um 5,1 prósent frá áramótum eða um rúma 58 milljarða króna. „Landsbankinn hefur aldrei lánað jafnmikið til heimila eins og á fyrri árshelmingi 2020. Alls tóku 3.963 einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum á fyrri árshelmingi að fjárhæð 36 milljarðar króna. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 51 milljarð króna frá áramótum, sem er 7,2% aukning,“ segir í tilkynningunni.
Á fyrri helmingi voru hreinar vaxtatekjur bankans 18,9 milljarðar króna samanborið við 20,5 milljarða í fyrra og lækka þær því um sjö prósent milli ára. Hreinar þjónustutekjur námu 3,6 milljörðum og lækka um 13 prósent frá sama tímabili í fyrra.
Virðisrýrnun útlána var 13,4 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Vænt útlánatap lána á áhættustigi eitt og tvö hefur hækkað verulega frá áramótum eða um 9,6 milljarða en matið byggist meðal annars á ítarlegu mati á áhrifum COVID-19 á útlánasanf bankans. Viðskiptavinir sem eru með alls 16 prósent af útlánum bankans hafa nýtt sér tímabundna frestun afborgana og vaxta.
Rekstrarkostnaður bankans nam 13,2 milljörðum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 14,3 milljarða í fyrra og lækkar því um átta prósent. Launakostnaður á tímabilinu var 7,6 milljarðar í ár samanborið við 7,4 milljarða í fyrra. Kostnaðarhlutfallið var 54,1 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 40,4 prósent í fyrra.
Þann 30. júní síðastliðinn var eigið fé bankans 244,4 milljarðar og eiginfjárhlutfallið 24,9 prósent.