1. Af hverju er verið að herða aðgerðir á ný?
Undanfarna 10-14 daga hafa komið upp veikindi vegna kórónuveiru meðal einstaklinga sem ekki hafa ferðast erlendis frá sjálfir og sem ekki hafa tengsl við innflutt tilfelli hér á landi í fyrsta sinn frá því að faraldur sem gekk hér í vor leið undir lok. Fjöldi smita fer vaxandi og eru nú a.m.k. tvö hópsmit komin fram þar sem hluti smitaðra hefur ekki klár faraldsfræðileg tengsl við aðra í hópnum.
2. Hvernig hefur faraldurinn þróast á þessum 10-14 dögum?
Í gær greindust tíu ný virk smit af kórónuveirunni og því eru í dag 39 manns með COVID-19 og í einangrun. Af þeim hafa 28 smitast hér á landi. Einn sjúklingur hefur verið lagður inn á Landspítalann vegna sjúkdómsins. Það er í fyrsta skipti frá því í maí. 215 eru í sóttkví en smitrakningu er ekki lokið og því viðbúið að það fjölgi í þeim hópi.
3. Hvenær voru síðast svona margir veikir af COVID-19 á landinu?
Þann 4. maí voru virk smit 37. Þeim fækkaði hratt næstu dagana á eftir. Frá því fyrsta smitið greindist 28. febrúar hafa 1.872 fengið sjúkdóminn hér á landi.
4. Hve lengi munu hinar hertu aðgerðir vara?
Í ljósi stöðunnar mælti sóttvarnalæknir, í minnisblaði sem hann sendi heilbrigðisráðherra, með ýmsum ráðstöfunum til eflingar sóttvarna. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á þær tillögur og taka þær gildi um hádegi á morgun, föstudaginn 31. Júlí og gilda til 13. ágúst eða í tvær vikur.
5. Hvað felst í hinum hertu aðgerðum hér innanlands?
Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga í stað 500. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.
Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu.
Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki þurfa að tryggja að ekki séu fleiri en 100 manns í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli fólks.
Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.
Sóttvarnalæknir leggur til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.
6. Hvað með aðgerðir á landamærum?
Sóttvarnalæknir mælir með að tvöföld sýnataka verði útvíkkuð til allra sem hingað koma frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur með ráðstöfunum í samræmi við það sem nefnt hefur verið heimkomusmitgát þar til neikvæð niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku.
Ef þessi ráðstöfun ber ekki árangur og innlend smit koma upp tengd komufarþegum þrátt fyrir beitingu ofangreindra ráðstafana þarf hugsanlega að efla aðgerðir á landamærum enn frekar.
7. Hvað með sjúkrahús og öldrunarheimili?
Landspítali hefur nú verið færður af óvissustigi á hættustig vegna faraldurs COVID-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega.
Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund áréttar í dag vegna nýjustu frétta að ekki nema 1-2 komi í heimsókn til hvers heimilismanns. Á Hrafnistuheimilunum má aðeins einn aðstandandi heimsækja hvern íbúa hverju sinni.
8. Hver hafa viðbrögðin verið?
Þegar hefur mörgum hátíðum sem til stóð að færu fram um helgina verið aflýst. Má þar nefna Sæludaga í Vatnaskógi, Eina með öllu á Akureyri og Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði. Þar sem aðeins mega koma saman 100 manns og Víðir Reynisson segir að nú verði að hætta að finna leiðir fram hjá því, t.d. með sóttvarnahólfum, má gera ráð fyrir að allflestum þeim skipulögðu viðburðum sem fram áttu að fara um helgina hafi verið slaufað.
9. Á hvaða viðbúnaðarstigi almannavarna erum við?
Ennþá er viðbúnaður almannavarna á hættustigi en á blaðamannafundi í Safnahúsinu í dag kom fram að það kunni að breytast síðar í dag. Það sem kemur til greina er að hækka viðbúnaðinn aftur upp á neyðarstig.
10. Hvað fellst í neyðarstigi?
Neyðarstig einkennist af atburði sem valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Verkefni á þessu stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni. Um neyðarstig er m.a. að ræða þegar slys eða hamfarir hafa orðið eða þegar heilbrigðisöryggi manna er ógnað svo sem vegna farsótta.