„Það er of snemmt að segja til um áhrif á bókanir en við gerum ekki ráð fyrir að þessar sóttvarnaraðgerðir muni hafa mikil viðbótaráhrif en kórónuveirufaraldurinn hefur auðvitað haft mikil áhrif á okkar starfsemi,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, spurð hvort þær hertu sóttvarnaraðgerðir sem tóku gildi á hádegi í dag hafi þegar haft einhver áhrif á bókanir flugsæta til og frá landinu.
Ásdís segir að áhersla félagsins núna sé á að upplýsa farþega um stöðuna og aðlaga þjónustuna að þessum breytingum þar sem þörf krefur, svo sem í innanlandsfluginu. Samkvæmt nýjum sóttvarnareglunum þarf að bera grímur í flugi innanlands þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga.
Einnig hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á landamæraskimun. Sóttvarnalæknir mælir nú með að tvöföld sýnataka, við komu og á degi 4-6 ef fyrra sýnið er neikvætt, verði útvíkkuð til allra sem hingað koma frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur með ráðstöfunum í samræmi við það sem nefnt hefur verið heimkomusmitgát þar til neikvæð niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku.
Ef þessi ráðstöfun ber ekki árangur og innlend smit koma upp tengd komufarþegum þrátt fyrir beitingu ofangreindra ráðstafana þarf að mati sóttvarnalæknis hugsanlega að efla aðgerðir á landamærum enn frekar.
Spurð hvort þessar hertu aðgerðir hafi einhver áhrif til breytinga á leiðakerfi Icelandair svarar Ásdís Ýr að stöðugt sé verið að meta stöðuna í takti við aðstæður á öllum mörkuðum flugfélagsins – bæði hvað varði ferðatakmarkanir og þróun eftirspurnar. „Við leggjum áherslu á sveigjanleika í okkar starfsemi og áætlanir okkar miða að því að geta brugðist hratt við breytingum sem þessum.“