Væntingavísitala Gallup mældist 52,3 stig í júlí og lækkaði um 25,5 stig frá fyrri mánuði, en í júní reis vísitalan upp í 77,8 stig. Þetta þýðir að fleiri Íslendingar eru neikvæðir hvað varðar stöðu mála og framtíðarhorfur í efnahags- og atvinnumálum en í síðasta mánuði og að heilt yfir eru fleiri neikvæðir en jákvæðir.
Væntingavísitalan er á skalanum 0-200 og hefur Gallup mælt hana í hverjum mánuði frá því í ágúst árið 2001. Þegar Væntingavísitalan mælist 100 stig þýðir það að jafn margir svarendur eru jákvæðir og neikvæðir.
Í apríl, þegar kórónuveirufaraldurinn var hámarki hér á landi, tók vísitalan sitt lægsta gildi síðan í október árið 2010 og mældist þá 44,4 stig. Undir lok síðasta árs og í upphafi þessa árs mældist hún um og yfir 90 stigum, en síðan hallaði verulega undan fæti þegar veiran fór að láta á sér kræla.
Vísitalan byggir á fimm þáttum; mati á núverandi efnahagsaðstæðum, væntingum til efnahagslífsins eftir hálft ár, mati á núverandi ástandi í atvinnumálum, væntingum til ástandsins í atvinnumálum eftir hálft ár og væntingum til heildartekna heimilisins eftir hálft ár.
Svarendur eru Íslendingar 18 ára og eldri af öllu landinu sem endurspegla lýðfræðilega sametningu þjóðarinnar og er svörum safnað með svokölluðum Gallupvagni.
Langtímamæling á væntingum þjóðar
Væntingavísitalan má segja að endurspegli viðhorf þjóðarinnar til stöðunnar í efnahags- og atvinnumálum og á vef Gallup má sjá hvernig jákvæðni og neikvæðni hefur þróast í takt við hina ýmsu há- og lágpunkta í efnahagsmálum frá upphafi aldar.
Á bóluárunum fyrir efnahagshrunið árið 2008 var vísitalan nokkuð stöðugt yfir 100 stigum og náði sínu hæsta sögulega gildi í maí árið 2007, þegar hún stóð í 154,9 stigum.
Lægsta sögulega gildið hingað til mældist svo í janúar árið 2009, í sama mánuði og búsáhaldabyltingin náði hámarki og ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var slitið.
Væntingavísitalan skreið ekki aftur upp fyrir 100 stig fyrr en í maí árið 2013, þegar hún mældist 101 stig. Hún var síðan stöðugt yfir 100 stigum á uppgangsárunum frá ágúst 2015 og fram í júlí 2018, á miklum uppgangstímum í ferðaþjónustugeiranum.