Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi ráðherra, segist ekki geta orða bundist eftir að hafa séð texta á upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar um Sigríði Tómasdóttur í Brattholti. Sigríður, sem fæddist árið 1871 og lést 1957, er þjóðþekkt kona fyrir framtak sitt til verndunar Gullfoss og annarra fossa, en hún barðist af einurð gegn áformum um virkjun fossins og var brautryðjandi á sviði náttúruverndar. Þess er þó hvergi getið á upplýsingaskilti sem stendur við fossinn og er á fjórum tungumálum. Þar kemur hins vegar fram að Sigríður hafi verið meðalkona á hæð, nokkuð þrekin, þótt fríð sýnum „á yngri árum“ og hafði „mikið og fagurt ljóst hár“.
„Það er margt vont við þennan texta en það versta er að þarna er ekki orð um baráttu Sigríðar gegn virkjun Gullfoss og hvernig hún opnaði augu almennings fyrir gildi og fegurð Gullfoss og mikilvægi hans og annarra ósnortinna náttúruperla,“ skrifaði Ingibjörg Sólrún á Facebook-síðu sína í gær. „Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að útlendingar sem lesa þennan texta hljóti að velta fyrir sér hvað þeim komi þessi kona við sem vann sér það helst til frægðar að fylgja ferðamönnum að fossinum! Getur Umhverfisstofnun ekki lagfært þennan texta?“
Kjarninn hafði samband við Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, sem sagðist hafa séð textann á skiltinu í fyrsta skipti í gærkvöldi. „Ýmsar spurningar kvikna. Fyrsta skref er að fá botn í forsendurnar fyrir textagerðinni. Án frekari skoðunar væri óvarlegt að hrapa að ályktunum en það virðist full ástæða til viðbragða.“
Ég sá um daginn að einhver vinur minn á Facebook var að hneykslast á þessum texta um Sigríði í Brattholti sem er á...
Posted by Ingibjörg Sólrún Gísladóttir on Thursday, July 30, 2020
Ein af hetjum Íslandssögunnar
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, bendir á að Sigríður í Brattholti sé konan sem „bjargaði Gullfossi undan virkjanaáformum“. Fyrir vikið sé hún sterkasta táknmynd náttúruverndar hér á landi. „Hún er ein af hetjum Íslandssögunnar. Það að strika út þennan þátt úr ævi hennar í kynningu á henni jafngildir því að fjarlægja styttuna af Jóni Sigurðssyni af Austurvelli eða fjalla um Skúla Magnússon án þess að nefna Innréttingarnar,“ skrifar Guðmundur Andri á Facebook í morgun.
„Sumir hægri menn hafa ógurlegar áhyggjur af kallastyttum í Bandaríkjunum og telja það jafngilda sósíalískri byltingu að fjarlægja slíkar táknmyndir sigra og meintra afreka. Skiltið með útlitslýsingunum á Sigríði í Brattholti, þar sem náttúruverndin er feimnismál, er miklu nærtækara dæmi um hið hljóðláta styttustríð á hendur merkum konum í sögu okkar sem fer fram án þess að við tökum eftir því.“
Barátta sem tók á sig ævintýrablæ
Í ítarlegri grein Eyrúnar Ingadóttur sagnfræðings, um baráttu Sigríðar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1994, er rifjað upp að um aldamótin 1900 hafi Gullfoss verið leigður til 150 ára er kaupsýslumenn voru í óða önn að tryggja sér rétt yfir fossum þegar virkjunarframkvæmdir hæfust.
Annar eiganda fossins, Tómas Tómasson í Brattholti, fékk bakþanka og upp frá því hófust málaferli þar sem hann reyndi að fá samninginn ógiltan. „Dóttir Tómasar, Sigríður, lagði á sig ómælt erfiði til þess að það tækist þau sex ár sem málaferlin stóðu. Þegar dómur féll í málinu, Brattholtsfeðginum í óhag, hótaði hún að henda sér í fossinn þegar fyrsta skóflustungan yrði tekin vegna virkjunarframkvæmda,“ segir í grein Eyrúnar.
Nokkrum árum síðar gekk þó leigusamningurinn til baka og Gullfoss var aldrei virkjaður og er eins og allir vita ein þekktasta náttúruperla Íslands í dag. „Barátta Sigríðar fyrir fossinum tók á sig ævintýrablæ og varð hún vel þekkt vegna þessa,“ segir í greininni í Lesbókinni. „Almenningur dáðist að átthagaást og áræði sveitakonunnar.“