Samstæðu Árvakurs, sem samanstendur af útgáfufélagi Morgunblaðsins og tengdra miðla, Landsprenti og Póstmiðstöðinni, tapaði 291 milljónum krónum á árinu 2019. Tap móðurfélags Árvakurs, sem er allt tap utan taps Póstmiðstöðvarinnar, móðurfélags dreifingarfyrirtækisins Póstdreifingar, sem Árvakur keypti 51 prósent hlut í 2018, var 210 milljónir króna Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Á þeim áratug sem leið frá því að nýir eigendur tóku yfir móðurfélagið Þórsmörk á árinu 2009, og fram til loka árs 2019, tapaði félagið samtals um 2,5 milljörðum króna. Tap Árvakurs árið 2018 var 415 milljónir króna og dróst því saman á milli ára.
Greint var frá því í lok síðustu viku að Póstdreifing, sem sér meðal annars um að dreifa Morgunblaðinu og helsta samkeppnisaðila þess í prentblaðaútgáfu Fréttablaðinu, hefði sagt upp öllum 304 blaðberum sínum en uppsagnir taka gildi frá og með deginum í dag, 1. ágúst. Hinn eigandi Póstdreifingar er Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, sem á 49 prósent hlut.
Árvakur mun, líkt og aðrir fjölmiðlar sem uppfylla sett skilyrði, fá greiðslu úr ríkissjóði 1. september næstkomandi vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að deila út 400 milljónum króna til fjölmiðla vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á rekstrarumhverfi þeirra. Viðbúið er að þrjú fjölmiðlafyrirtæki uppfylli sett skilyrði ráðamanna fyrir hámarksgreiðslu, sem er allt að 100 milljónir króna. Þau eru Árvakur, Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, og Sýn. Því mun að óbreyttu 75 prósent styrktarupphæðarinnar fara til þessara þriggja fjölmiðlafyrirtækja.
Hvorki Þorsmörk né Árvakur hafa skilað inn ársreikningi til fyrirtækjaskráar.
Hlutafé aukið um 300 milljónir króna
Kjarninn greindi frá því í júní að tilkynnt hefði verið um það mánuði fyrr til opinberra aðila að hlutafé í Þórsmörk hefði verið aukið um 300 milljónir króna. Í frétt Morgunblaðsins í dag segir að sú aukning sé skráð á síðasta ári. Hækkunin á hlutafé félagsins, sem fór út 606,6 milljónum í 906,6 milljónir, var öll greidd með peningum.
Fréttablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að matvælafyrirtækið Lýsi og fjárfestingafélag á vegum aðaleigenda Lýsis hefðu bæst við hluthafahóp Þórsmerkur og tengdra miðla. Félögin tvö fara nú með rúmlega tíu prósenta hlut í Þórsmörk. Mikil tengsl eru milli Lýsis og Ísfélags Vestmannaeyja, en eigendur þess eru samanlagt stærstu eigendur Þórsmerkur. Hlynur A ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, bætti líka við sig hlut í Þorsmörk. Hlutur Ramma hf. jókst einnig eftir síðustu hlutafjáraukningu.
Á sama tíma var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir nú til ársloka 2024.
Þegar er búið að nýta hana að mestu með 300 milljón króna hlutafjáraukningunni sem tilkynnt var til fyrirtækjaskrár í maí.
Afskrifuðu milljarð
Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 hafa þeir lagt félaginu til rúmlega 1,9 milljarð króna. Á sama tíma hefur lestur flaggskips útgáfunnar, Morgunblaðsins, farið úr því að vera rúmlega 40 prósent í að vera 22,7 prósent í júní 2020. Samdrátturinn er enn meiri hjá fólki undir fimmtugu en þar hefur lesendur fækkað úr því að vera 31,1 prósent af landsmönnum vorið 2009 í að vera 12,7 prósent í síðustu mælingu Gallup. Á undanförnum árum hefur Morgunblaðið verið fríblað einu sinni í viku, á fimmtudögum, og þá verið í svokallaðri aldreifingu. Í henni felst að blaðinu er dreift til tugþúsunda sem eru ekki áskrifendur af blaðinu.
Íslenskar sjávarafurðir, einn stærsti eigandi Þórsmerkur, bókfærðu virði hlutar síns í Þórsmörk á 378,1 milljónir króna í nýlega ársreikningi þeirra fyrir árið 2019. Þar kom einnig fram að Þórsmörk skuldaði félaginu 68 milljónir króna um síðustu áramót. Sú skuld er á gjalddaga í ár, 2020.
Í maí 2019 var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606,6 milljónir króna. Það þýddi að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið. Síðan þá hefur, líkt og áður sagði, hlutaféð verið aukið um 300 milljónir króna.
Eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, er eftirfarandi samkvæmt heimasíðu fjölmiðlanefndar:
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson,19,45 prósent
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 18,49 prósent
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 13,9 prósent
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 13,41 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson, 8,99 prósent
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,87 prósent
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson, 2,40 prósent
- Stálskip ehf., forsv.maður Halldór Kristjánsson, 2,06 prósent
- Brekkuhvarf ehf., forsv.maður Ásgeir Bolli Kristinsson, 2,05 prósent
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,03 prósent
- Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., forsv.maður Einar Valur Kristjánsson, 0,87 prósent