Rannsókn á áhrifum ryks á loftslagið fór formlega af stað þann 17. júlí síðastliðinn á Raufarhöfn þegar settir voru upp rykmælar á vegum vísindamanna við háskólann í Darmstadt í Þýskalandi.
Uppsetning rykmælanna er liður í hinu fjölþjóðlega HiLDA verkefni sem snýst um að rannsaka loftslagsbreytandi áhrif ryks á norðurslóðum. Margt er enn á huldu um áhrif ryksins og þátt þess í spálíkönum um loftslagsbreytingar og standa vonir til þess að með rykmælingunum verði hægt að svara fleiri spurningum um áhrifin.Þekkt er að ryk þyrlast upp í eyðimörkum á suðurhveli jarðar en færri vita að Ísland er ein helsta uppspretta ryks á norðurhveli jarðar. Þetta hefur vakið athygli þýskra vísindamanna sem nú hafa komið fyrir mælum til að safna ryki. Þetta eru þó ekki fyrstu mælarnir hér á landi en íslenskir vísindamenn hafa einnig staðið að rannsóknum á ryki.
Kanna bæði uppruna og endastöð ryksins
Áhrif ryks á norðurslóðum eru talin vangreind í spálíkönum um loftslagsbreytingar. Því er talið brýnt að koma upp mælistöðvum eins og þeirri sem nú hefur verið sett upp á Raufarhöfn.
Ryk sem verður til hér á landi er talið að berist alla leið á Svalbarða, en þar verður einnig komið upp rykmælum en hugmyndin er að rekja bæði uppruna ryksins og endapunkt.
Þrír mismunandi rykmælar voru settir upp við Raufarhöfn og munu þeir safna ryksýnum í allt að tvö ár, segir í frétt á vef Rannsóknastöðvarinnar Rifs en það eru starfsmenn Rifs munu sjá um sjálfa sýnatökuna.
Starfsmenn Rifs sjá fengu verklega kennslu í notkun rykmælanna hjá vísindamanninum Konrad Kandler sem leiðir verkefnið þegar mælunum var komið fyrir á dögunum.
Rannsóknastöðin Rif er sjálfseignarstofnun sem hefur til umráða jörðina Rif, nyrstu jörð á Íslandi. Frá stofnun 2014 hefur Rif unnið að því að skapa vettvang á Raufarhöfn og Melrakkasléttu til viðamikillar vöktunar á vistkerfi svæðisins, en Melrakkasléttan er aðgengilegasta svæði Íslands sem skilgreint er sem heimskautasvæði. Rif er í samstarfi við fjölmargar rannsóknastofnanir, bæði innlendar og erlendar, og stefnir að því markmiði að Melrakkaslétta verði einn helsti vettvangur Íslendinga í rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum loftslagsbreytinga á það.
Vöktun og rannsóknir hingað til hafa einkum beinst að fuglalífi, gróðurfari og smádýrum en árið 2020 hófst einnig reglubundin vöktun á ferskvatni á Melrakkasléttu. Einnig má nefna að sett var upp veðurstöð á landi Rifs árið 2018, í samstarfi við m.a. Veðurstofu Íslands. Verkefni Rifs eru því afar fjölbreytt og hafa rykmælingar nú bæst á verkefnalistann.