Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, birti í síðustu viku áform um frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem fela í sér heimild til að leggja févíti á þá farþega sem virða ekki reglur um greiðslu fargjalds, aðgangstakmarkanir, notkun aðgangskorta, umgengi eða aðra þætti í þjónustu rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga.
Í áformunum segir að áformin um lagasetninguna séu tilkomin vegna fyrirhugaðrar breytingar á núverandi fyrirkomulagi fargjalda hjá Strætó bs. sem muni leiða til þess að sala fargjalda verður alfarið utan almenningsvagna og unnt verður að fara í vagnana um báðar dyr. Með breyttu kerfi muni vagnstjórar ekki lengur hafa tök á því að hafa eftirlit með greiðslu fargjalda og virkjun farmiða verður með einfaldari hætti.
Með breytingunni verði hægt að flýta afgreiðslu í vagna og stytta biðtíma á biðstöðvum, einfalda alla umsýslu við almenningssamgöngur og efla þjónustu við viðskiptavini. „Til að styðja við og framfylgja þessari þróun er því áformað að leggja til í frumvarpi til breytinga á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 að rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga verði heimilt að leggja févíti á þá sem koma sér undan gjaldi eða misnota kerfið á einhvern hátt með tilheyrandi tekjutapi fyrir rekstraraðilann.“
Ein önnur breyting er í áformunum, en hún snýr að því að afnema það skilyrði að hafa almennt rekstrarleyfi til að fá ferðaþjónustuleyfi.
Fyrirtæki verða hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 1.150.000 krónum fyrir fyrsta ökutæki og kr. 640.000 krónur á hvert ökutæki umfram það.
Í áformunum segir að fjárhagskröfur rekstrarleyfis byggi á Evrópureglum vegna hópferðaaksturs en ferðaþjónustuleyfið sé hins vegar sér íslensk útfærsla sem gildi um almenna fólksbifreiðir sem notaðar eru í ferðaþjónustu. „Þar sem rekstur á grundvelli ferðaþjónustuleyfis er mun minni í sniðum en rekstur á grundvelli rekstrarleyfis enda um fólksbifreiðar að ræða þykir rétt að leggja til að slakað verði á kröfum um fjárhagsgrundvöll vegna útgáfu ferðaþjónustuleyfis. Því er áformað að leggja til að ekki þurfi lengur að hafa rekstrarleyfi til að fá útgefið ferðaþjónustuleyfi.“