„Jújú, það er önnur bylgja hafin. Það segir sig sjálft að við erum með aukningu á tilfellum. Það er bara smekksatriði hvort að menn vilja kalla það nýja bylgju eða ekki. En bara til að klára þessa umræðu, og setja punkt aftan við það, þá getum við sammælst um það að þetta er kannski ný bylgja.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna sem hófst klukkan 14 í dag þegar hann var spurður að því hvort að önnur bylgja faraldursins væri hafin.
Átta ný innanlandssmit af COVID-19 veirunni greindust í gær. Alls var 291 sýni greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og voru átta þeirra jákvæð. Af þeim 914 sýnum sem Íslensk erfðagreining greindi í gær reyndist ekkert jákvætt en Íslensk erfðagreining hefur verið að mæla fyrir smiti í samfélaginu frá 29. júlí.
2.035 sýni voru tekin á landamærum í gær. Beðið er eftir mótefnamælingu í tveimur þeirra. Frá 15. júní þegar sýnataka hófst hafa 68.203 sýni verið tekin við landamæri.
Staðan í raun óbreytt milli daga
Þórólfur sagði að smitin sem hefðu verið að greinast undanfarna daga tengdust annarri af þeim hópsýkingum sem hefðu verið greindar. Virk smit væru nú í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Langflestir þeirra sem eru í sóttkví eru á höfuðborgarsvæðinu.
Staðan í dag væri í raun nánast óbreytt frá því í gær. Þórólfur sagði að það væri ánægjulegt að sjá hversu fáir væru að greinast hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hóf að skima á ný með handahófskenndum hætti. Alls hefur fyrirtækið skimað 3.374 einstaklinga frá 29. júlí en einungis tveir hafa greinst með veiruna. Það renndi stoðum undir að samfélagsmit væri ekki mjög útbreitt.
Ef þessar aðgerðir myndu ekki skila árangri ætti hins vegar að verða töluverð aukning í smitum.
Tækifærið er núna
„Staðan í dag, með 80 smit, er eins og hún var 10. mars, og við vitum auðvitað ekki alveg hvaða stefnu þessi smit taka næstu daga. En nú er tækifærið til að ráða niðurlögum þess og við verðum að hjálpast áfram að,“ sagði Alma D. Möller landlæknir á fundinum í dag.
Alma sagði að verið væri að nota sömu aðferðir og síðast þegar COVID-19 smit blossuðu upp. Í þeim felst meðal annars að slá skjaldborg um hina eldri og viðkvæmu. Síðan væri annað markmið að vernda nauðsynlega innviði, aðallega heilbrigðiskerfið, með því að fletja kúrfuna. Þá þyrfti að miðla upplýsingum, hvetja til sóttvarna og biðla til fólks að sækja smitrakningarappið.