Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga er nú orðinn 83. Slíkur fjöldi hefur ekki verið með COVID-19 hér á landi síðan 30. apríl er tilfellin voru 86. Fyrst komst fjöldinn yfir áttatíu 10. mars er 82 voru með virk smit.
Þrjú ný tilfelli greindust í gær, tvö hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rannsökuð voru 233 sýni hjá Landspítalanum og 534 hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Í gær voru 670 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 734. Einn liggur enn á sjúkrahúsi með COVID-19.
Flestir hinna sýktu eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 27 sjúklingar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að baráttan við kórónuveiruna væri meira en nokkrar orrustur – hún væri langtíma stríð. Ef vilji væri til að halda áfram á sömu braut yrði framhaldið það að herða þyrfti og slaka á aðgerðum til skiptist næstu mánuði og jafnvel ár. Nú þyrftu fleiri að koma að borðinu. Baráttan snérist ekki lengur aðeins um sóttvarnir, sem yrðu þó áfram hans sjónarmið, heldur einnig pólitík og efnahagsmál.