Flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara var neikvæður á síðasta ársfjórðungi í fyrsta sinn frá því á örðum ársfjórðungi ársins 2012. Á síðasta ársfjórðungi fluttu um 260 fleiri erlendir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fluttu til landsins um 1.100 erlendir ríkisborgarar á síðasta ársfjórðungi en um 1.350 erlendir ríkisborgarar fluttu af landinu.
Ef litið er á fjölda aðfluttra og brottfluttra Íslendinga sést að fjöldi þeirra sveiflast töluvert á milli ársfjórðunga. Á öðrum ársfjórðungi fluttust 280 fleiri Íslendingar til landsins heldur en fluttu frá því. Frá árinu 2016 hefur flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara alltaf verið jákvæður á öðrum ársfjórðungi. Hann hefur þó aldrei verið jafn mikill og í ár, næst kemst annar ársfjórðungur ársins 2017 þegar 270 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins heldur en fluttu af landi brott.
Erlent starfsfólk í lykilhlutverki í ferðaþjónustu
Erlendir ríkisborgarar léku lykilhlutverk í hagvaxtarskeiðinu sem hófst árið 2011 og ómögulegt hefði veið að manna öll þau störf sem sköpuðust á tímabilinu ef ekki hefði verið fyrir erlent vinnuafl.
Árið 2011 kom rúm hálf milljón erlendra ferðamanna til landsins. Þá störfuðu í einkennandi greinum ferðaþjónustu rúmlega 13.500 manns, þar af um 2.300 erlendir ríkisborgarar eða um um 13,7 prósent af öllu erlendu vinnuafli hér á landi. Árið 2014 kom hingað tæplega í ein milljón ferðamanna. Þá störfuðu í ferðaþjónustu um 18.300 manns, þar af rúmlega 3.600 erlendir ríkisborgarar. Þá starfaði um 17 prósent af erlendu vinnuafli hérlendis við ferðaþjónustu.
Hoppum nú til ársins 2019, fjöldi ferðamanna hefur aðeins lækkað frá metárinu 2018 en hingað komu rétt rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna árið 2019. Í ferðaþjónustu störfuðu rétt rúmlega 28 þúsund manns, þar af um 10.700 erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að rúmlega fjórðungur erlends vinnuafls hér á landi starfaði í ferðaþjónustu á síðasta ári. Hlutfall erlends vinnuafls sem starfar við ferðaþjónustu næstum því tvöfaldaðist á tímabilinu 2011-2019. Til samanburðar fór hlutfall íslensks vinnuafls sem starfar í ferðaþjónustu úr 6,2 prósentum upp í 9,7 prósent á sama tímabili.
Mikið atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara
Í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar fyrir júní kemur fram að í lok mánaðarins voru alls 8.487 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá, 6.656 í almenna bótakerfinu og 1.831 í minnkuðu starfshlutfalli. Í sama mánuði í fyrra voru 2.578 erlendir ríkisborgarar án atvinnu. Í skýrslunni kemur fram að almennt atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hafi verið mikið áður en kórónuveirufaraldurinn setti mark sitt á íslenskan vinnumarkað í formi aukins atvinnuleysis: „Hlutfall erlendra ríkisborgara á almennu skránni er nú um 41% líkt og það var í desember og fram í febrúar.“
Þá kemur fram í skýrslunni að áætlað atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hafi verið um 21,5 prósent á heildina litið í júní. Af því hafi þrjú prósent verið vegna minnkaðs starfshlutfalls en almennt atvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi numið 18,5 prósentum. Til samanburðar var almennt atvinnuleysi í heild á íslenskum vinnumarkaði í júní 7,5 prósent.
Fjöldi erlendra ríkisborgara í takti við hagsveifluna
Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins fór hratt hækkandi eftir árið 2005 þegar það var 3,6 prósent. Hlutfallið náði ákveðnu hámarki árið 2009 þegar það stóð í 7,6 prósentum en fór svo lækkandi. Árin 2011 og 2012 varð hlutfallið lægst eftir hrun þegar það stóð í 6,6 prósentum. Síðan þá hefur það farið hratt hækkandi aftur og á fyrsta fjórðungi ársins 2020 var það komið í 13,9 prósent.
Áhrif þessarar fjölgunar á íbúatölur eru þónokkur og hefur fjölgunin verið drifin áfram af erlendum ríkisborgurum frá árinu 2012. Frá upphafi ársins 2012 hefur íbúum landsins fjölgað úr 320 þúsundum upp í tæp 367 þúsund, það er um tæplega 47 þúsund. Á þessu tímabili fjölgaði aðfluttum erlendum ríkisborgurum um tæp 27 þúsund.