„Ég hef stungið upp á því við stjórnvöld að settur verði á laggirnar samstarfsvettvangur um hvernig við ætlum að hafa þetta næstu mánuði og ár,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Núna er þetta meira en bara sóttvarnamál. Það eru fleiri sem þurfa að koma að borðinu og það þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Mín sjónarmið eru fyrst og fremst sóttvarnasjónarmið og ég áfram halda þeim á lofti en þetta er pólitískt mál, þetta er efnahagslegt mál og alls konar viðhorf.“
Þórólfur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hann ræddi stöðu faraldursins hér á landi sem og framtíðina. Virk smit hér landi eru nú orðin áttatíu og hefur þeim fjölgað hratt á síðustu dögum.
„Þetta er viðvarandi ástand,“ bendi hann á þó að alltaf kæmu til nýjar áherslur og hlutir sem líta þyrfti til. „Og þannig verður þetta næstu mánuðina. Ég held að menn megi ekki líta svo á að þetta sé einhver úrslita orrusta núna. Við gerum eitthvað sem vonandi virkar vel en síðan taka bara við nýjar áskoranir.“
Á meðan faraldurinn væri í sókn erlendis yrði þetta staðan sem kæmi reglulega upp. „Og hann er svo sannarlega í sókn erlendis. Það greinast fleiri tilfelli á hverjum degi núna heldur en nokkurn tímann áður. Það sem við höfum verið að tala um er að við þurfum að hugsa um þessi mál til langtíma. Þetta er ekki bara hvað ætlum við að gera í dag og á morgun. Hvað ætlum við að gera næstu mánuði – hvernig ætlum við að haga þessu málum hér á Íslandi.“
Þórólfur sagði það rétt að ekki hefði tekist að finna tengsl milli allra sem smitast hefðu af veiru af sama stofni, þeirri sem valdið hefur stórri hópsýkingu hér á landi. Hins vegar hefði smitrakning ekki verið svona nákvæm áður.
Hann benti á að það væri lykilatriði að rekja snemma og setja fólk í einangrun eða sóttkví en bætti svo við með áherslu: „EF að menn vilja að faraldurinn fari ekki að dreifa sér hérna út um allt. Ef okkur er nokkurn veginn sama um það þá getum við hætt þessu. Þá fáum við örugglega dreifingu hér innanlands með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðiskerfið. En það er þetta sem ég er að tala um, nú þurfa menn að ákveða sig, hvernig vilja menn hafa þetta áfram? Því við eigum eftir að fá aðra hópsýkingu eftir þessa, það eiga eftir að koma smit hérna inn, í raun hvað sem við gerum. [...] Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér varðandi þessa veiru næstu mánuði eða kannski ár jafnvel.“
Ef núverandi stefnu yrði haldið áfram þyrfti stöðugt að vera að herða og slaka á aðgerðum. „Ég veit að þetta er mjög óþægilegt fyrir marga – þetta er óþægilegt fyrir alla. En afleiðingin af því að gera ekkert er sú að þá fáum við líklega yfir okkur holskeflu með tilheyrandi afleiðingum. Og þá er of seint að spyrja: Af hverju gerðum við ekki þetta eða hitt?“
Þórólfur sagðist hafa miklar áhyggjur af því að fólki skorti þolinmæði til að taka þátt í samfélagslegum aðgerðum vegna faraldursins af fullum hug til lengdar. Viðurkenndi hann að tímabil faraldursins væri lengra og meira en hann sjálfur gat séð fyrir. Fyrirfram hefði hann talið að faraldurinn yrði farinn að ganga aðeins niður erlendis á þessum tímapunkti. „Ég bjóst ekki við að hann ætti ennþá eftir að ná toppi. Þannig að veröldin er bara önnur og þetta tekur langan tíma. Og það er það sem ég hef verið að segja, við verðum að lifa með þessari veiru, við verðum taka inn í [jöfnuna] að það er ýmislegt annað sem við þurfum að gera líka og það eru ýmsar aðrar áskoranir sem við þurfum að fást við.“
Því hefði hann lagt til við stjórnvöld að settur yrði á stofn samráðsvettvangur þar sem farið yrði yfir hvert fólk vildi stefna næstu mánuði og ár. „Við þurfum að fara að venjast þeirri hugsun að við erum ekki í einhverjum litlum orrustum. Þetta er langtíma stríð.“