Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga er nú orðinn 91. Slíkur fjöldi hefur ekki verið með COVID-19 hér á landi síðan 30. apríl er tilfellin voru 86.
Níu ný tilfelli greindust í gær. Þá voru 734 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 746. Einn sjúklingur með COVID-19 hefur legið á sjúkrahúsi síðustu daga en samkvæmt Covid.is liggur nú enginn með sjúkdóminn á sjúkrahúsi. Frá upphafi faraldursins hafa 1.926 greinst með sjúkdóminn hér á landi.
„Það er sem stendur óvissa um hvaða stefnu faraldurinn muni taka,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi gærdagsins. „Hvort að smitum muni fjölga eða hvort okkur tekst öllum í sameiningu að ná tökum á smitunum. Við teljum að við þurfum að læra að lifa með veirunni til lengri tíma og að það sé óhjákvæmilegt að alltaf verði einhver smit í gangi. En hins vegar myndum við vilja hafa betri stjórn á aðstæðum akkúrat núna og þess vegna erum við í öllum þessum aðgerðum.“
Alma ítrekaði að við værum í miklu betri stöðu núna en í vetur til að sinna þeim sem veikjast. „Covid-göngudeildin heldur vel utan um alla og ef að fólk þarf innlögn þá búa læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk yfir nauðsynlegri þekkingu, reynslu, lyfjum og tækjabúnaði.“