Samband íslenskra sveitarfélaga telur það ekki vera nógu skýrt í drögum að reglugerð um neyslurými hver muni beri ábyrgð á þeirri starfsemi sem fram fer í tengslum við neyslurými. Þetta kemur fram í nýrri umsögn sambandsins um drögin sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda.
Á vordögum samþykkti Alþingi frumvarp til laga um um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem heimilar sveitarfélögum að stofna og reka neyslurými ef skilyrði reglugerðar sem ráðherra setur um neyslurými eru uppfyllt. Reglugerð ráðherra var birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 2. júní síðastliðinn en umsögn sambandsins barst nú í vikunni.
Þörf á greiningu á samspili heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu
Í umsögn sambandsins segir: „Áformuð reglugerð sækir stoð sína til lagabreytingar sem Alþingi gerði þann 20. maí sl. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra breytinga er vísað til skýrslu heilbrigðisráðherra um skaðaminnkun (þingskjal 1595 á 846. máli 145. lþ.) og þeirrar niðurstöðu „að líta ætti á vanda neytenda ávana- og fíkniefna í íslensku samfélagi sem heilbrigðisvandamál fremur en viðfangsefni lögreglu og refsivörslukerfisins, að neytendur í vanda væru fyrst og fremst sjúklingar en ekki afbrotamenn.““
Þörf hafi verið á hliðstæðri greiningu á samspili heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu áður en lagastoð var sett inn í reglugerð sem gengur út frá því að sveitarfélög beri ábyrgð á rekstri og starfsemi neyslurýma að mati sambandsins.
Ábyrgð á heilbrigðisþjónustu liggi hjá ríkinu
Enn fremur segir í umsögninni: „Sambandið leggur megináherslu á að þeir sem glíma við mikinn neysluvanda eru „fyrst og fremst sjúklingar“ en hafa einnig brýna þörf fyrir félagslega aðstoð og stuðning. Minnt er á að meginreglur íslenskra laga eru alveg skýrar um að ábyrgð á heilbrigðisþjónustu liggi hjá ríkinu en ekki sveitarfélögunum.“
Þá telur sambandið að álitaefni geti komið komið upp ef ekki verður ráðist í að gera áðurnefnda greiningu á samspili heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu. Í álitinu eru nefnd nokkur dæmi: „Teljast notendur vera sjúklingar í skilningi laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga? Taka lög nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, til líkamlegs eða geðræns tjóns sem verður í neyslurými? Geta starfsmenn sveitarfélags í neyslurými, sbr. IV. kafla áformaðrar reglugerðar orðið bótaskyldir gagnvart notendum vegna tjónstilvika sem eiga sér stað í neyslurými? Hvað merkir í því sambandi að neyslurými teljist „lagalega verndað umhverfi“ sbr. 3. gr. áformaðrar reglugerðar?“
Nýtt grátt svæði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga
Í umsögninni er það sagt áhyggjuefni að óskýrt fyrirsvar fyrir þeirri starfsemi sem ráðgerð sé í neyslurýmum kunni að leiða til þess að nýtt grátt svæði verði til í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þar segir einnig að við meðferð frumvarpsins hafi komið fram að gert hefði verið ráð fyrir 50 milljóna króna framlagi frá heilbrigðisráðuneyti til að koma úrræðinu á fót. Það fjármagn fari í að koma úrræðinu á fót í Reykjavík.
„Þótt líklegt megi telja að samningaviðræður heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurborgar leiði til niðurstöðu er hitt óútkljáð hvernig önnur sveitarfélög eigi að bera sig að komi fram þrýstingur um að þau taki til við að starfrækja slík rými,“ segir um stöðu annarra sveitarfélaga í umsögninni.
Segja starfsemi neyslurýma mikilvæga
Hætta sé á því að sveitarfélög sitji uppi með verkefni án fjármagns að mati sambandsins: „Þá skal ennfremur minnt á að sveitarfélögin hafa ekki góða reynslu af því að verkefni með fremur óskýrri sameiginlegri ábyrgð séu fjármögnuð með skúffupeningum eða í gegnum tímabundin tilraunaverkefni. Fjölmörg dæmi eru um að fjárveitingar ríkisins þverri á tiltölulega fáum árum en sveitarfélög sitji þá eftir með verkefni og ábyrgð á því að mæta væntingum notenda um þjónustu“
Í samantektarkafla umsagnarinnar segir að sambandið taki heilshugar undir nauðsyn þess að þróa áfram skaðaminnkandi aðgerðir í opinberri velferðarþjónustu og að starfsemi neyslurýma sé mikilvægur þáttur í þeirri nálgun. Hins vegar vanti að skýra það betur hver beri ábyrð á þeirri starfsemi sem fram fer í tengslum við neyslurými.