Allir ríkisstjórnarflokkarnir þrír tapa fylgi milli mánaða samkvæmt nýjustu könnun Gallup. Sameiginlegt fylgi þeirra var 46,2 prósent í lok júnímánaðar en um nýliðin mánaðamót var það 41,7 prósent. Fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur því lækkað um 4,5 prósentustig á einum mánuði eða um tíu prósent.
Þeir mælast nú samanlagt með 11,2 prósentustigum minna fylgi en þeir fengu í þingkosningunum 2017. Nýverið var tilkynnt að næstu kosningar fari fram 25. september 2021.
Sá flokkur sem bætir mestu við sig milli mánaða eru Píratar, sem mælast nú með 13,9 prósent fylgi. Það er 3,2 prósentustigum meira en í lok júní sem þýðir að flokkurinn bætir við sig tæplega 30 prósent fylgi á milli mánaða.
Samfylkingin stendur nánast í stað milli mánaða og segjast 14,8 prósent kjósenda styðja flokkinn. Sömu sögu er að segja um Viðreisn sem mælist nú með 10,8 prósent fylgi. Samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar er nú 39,5 prósent, en flokkarnir þrír fengu 28 prósent atkvæða 2017.
Miðflokkurinn mælist í kjörfylgi um þessar mundir þar sem 10,6 prósent kjósenda segjast styðja flokkinn. Flokkur fólksins myndi fá 4,3 prósent atkvæða ef kosið væri í dag og Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 3,8 prósent fylgi.
Liðlega tíu prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og sama hlutfall sagði að hann myndi skila auðu eða ekki kjósa.
Stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að dala í könnunum Gallup og mælist nú 55,4 prósent. Mestur mældist hann 74,1 prósent í desember 2017 og hann reis einnig umtalsvert eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á, en í lok apríl mældist stuðningurinn 61,3 prósent.
Niðurstöðurnar á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 30. júní 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.274 og þátttökuhlutfall var 51,7 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,3 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.