Hægt hefur á verðhækkunum fasteigna á milli ára í stærri þéttbýliskjörnum landsins samkvæmt nýlegri Hagsjá Landsbankans. Þetta gildir um alla þá þéttbýliskjarna sem til skoðunar eru í Hagsjánni en það eru Akureyri, Árborg, Akranes, Reykjanesbær og höfuðborgarsvæðið. Verðhækkanir á fasteignum mælast nú á bilinu núll til tíu prósent milli ára en á síðasta ársfjórðungi mældust hækkanirnar þrjú til 16 prósent.
Á milli ársfjórðunga varð lítil breyting á fasteignaverði á þessum stöðum. Mest verð breytingin á Akureyri þar sem íbúðaverð hækkaði um þrjú prósent. Á einum stæð lækkaði íbúðaverð milli ársfjórðunga, í Reykjanesbæ, um eitt prósent. Verð hækkaði um eitt prósent á Akranesi en stóð í stað í Árborg og á höfuðborgarsvæðinu.
Í Hagsjánni segir að verð hafi hækkað hraðar utan höfuðborgarsvæðisins á síðustu árum, en nú hægir á verðhækkunum alls staðar. Mesta verðhækkunin á milli ára varð á Akranesi þar sem íbúðaverð hækkaði um tíu prósent. Minnst varð hækkunin í Reykjanesbæ en íbúðaverð hækkaði þar um 0,3 prósent á milli ára.
Hæsta fermetraverðið utan höfuðborgarsvæðisins á Akureyri
Fermetraverð er að jafnaði um 30 prósentum lægra á þéttbýlissvæðum utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt Hagsjánni. Af þeim stöðum sem áður eru nefndir er fermetraverðið hæst utan höfuðborgarsvæðisins á Akureyri, 369 þúsund á fermetrann. Lægst er verðið í Reykjanesbæ, 316 þúsund á fermetrann.
Þinglýstum kaupsamningum fjölgar víða utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi. Mest var aukingin á Akranesi en þar seldust 57 prósent fleiri íbúðir á öðrum ársfjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi fækkaði hins vegar þinglýstum kaupsamningum á Höfuðborgarsvæðinu um 31 prósent milli ára.