Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga er nú orðinn 97 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is.
Fjögur ný tilfelli greindust í gær, tvö hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og tvö í skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Í gær voru 746 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 795. Enginn liggur þó á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.
Flestir hinna sýktu eru á aldrinum 18-29 ára eða 32 einstaklingar. Þrír á áttræðisaldri eru í einangrun og einn á níræðisaldri.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.930 manns greinst með COVID-19.
Tæplega þrjú þúsund sýni voru tekin í gær, langflest við landamæraskimun eða 2.154.
Sóttvarnalæknir hefur sagt að veikindi þeirra sem nú eru sýktir séu ekki mjög alvarleg en hefur samtímis minnt á að það kunni að breytast. Mögulega sé verið að greina fólk fyrr núna en í fyrstu bylgju faraldursins í vetur. Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær bar hann saman fjölda tilfella fyrstu daga fyrstu bylgjunnar og fyrstu daga þeirra bylgju sem nú gengur yfir. Sagði hann þær mjög svipaðar.
Tvö afbrigði af veirunni eru að valda sýkingum nú. Í annarri sýkingunni hefur ekki tekist að rekja smit til upprunans og það afbrigði veirunnar hefur nú skotið sér niður í öllum landshlutum. Ekki hefur heldur tekist að tengja alla þá sem sýkst hafa.
„Það er sem stendur óvissa um hvaða stefnu faraldurinn muni taka,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundinum fyrr í vikunni. „Hvort að smitum muni fjölga eða hvort okkur tekst öllum í sameiningu að ná tökum á smitunum. Við teljum að við þurfum að læra að lifa með veirunni til lengri tíma og að það sé óhjákvæmilegt að alltaf verði einhver smit í gangi. En hins vegar myndum við vilja hafa betri stjórn á aðstæðum akkúrat núna og þess vegna erum við í öllum þessum aðgerðum.“
Alma ítrekaði hins vegar að við værum í miklu betri stöðu núna en í vetur til að sinna þeim sem veikjast. „Covid-göngudeildin heldur vel utan um alla og ef að fólk þarf innlögn þá búa læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk yfir nauðsynlegri þekkingu, reynslu, lyfjum og tækjabúnaði.“