Vonbrigði. Áfall. Erfið staða. Þungar fréttir.
Upplýsingafundur almannavarna og landlæknis í dag var með öðrum brag en hann hefur verið lengi. Tilkynnt var að einn lægi nú á gjörgæsludeild og í öndunarvél vegna COVID-19. Sá er ungur, aðeins á fertugsaldri.
Þessar þungu fréttir voru okkur færðar eftir að ítrekað hefur komið fram á síðustu fundum að veikindi væru ekki mjög alvarleg þrátt fyrir fjölgun smita. Sóttvarnalæknir segir nú ekkert benda til þess að veiran sé að veikjast eins og velt hafði verið upp á fyrri upplýsingafundum. Skýringin á minni veikindum í upphafi þessarar bylgju faraldursins væri líklega sú að ungt fólk er í meirihluta þeirra sem greinst hafa með COVID-19. Reynslan hefur sýnt að hann leggst harðar á eldra fólk og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.
„Það er aldrei hægt að leggja of mikla áherslu á það að í þessari baráttu er veiran óvinurinn,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, á fundinum. „Það er auðvitað mikið sjokk að greinast [með COVID-19], að fá þetta símtal frá rakningarteyminu og COVID-göngudeildinni. Og síðan fyrir aðra að fá símtal um að vera í sóttkví.“
Hann sagði „kannski of snemmt“ að segja til um hvort að það verði mikil og útbreidd veikindi. „En þetta breytist hratt. Við sjáum það í dag. Það er stutt síðan við fengum fréttir af þessari innlögn á Landspítalann. Við sáum þetta gerast í mars. Við sáum þetta gerast hér á Íslandi. Við sjáum þetta gerast í útlöndum. Það eina sem er alveg öruggt í þessu er að ef að veiran er að dreifa sér þá munum við fá meira af alvarlegum veikindum. Og við munum sjá fleiri einstaklinga leggjast inn á spítala.“
Hann sagði að nú væri mikilvægt að beita dómgreindinni og vera varkár. Að sýna tillitssemi og taka ábyrgð. „Við höfum áður talað um mikilvægi þess að verja viðkvæmu hópana. Og þeir sem umgangast slíka hópa þurfa að vanda sig sérstaklega. Það á við okkur sem eigum aldraða foreldra eða ömmur og afa sem við þurfum að huga að.“
Veiran er að smitast úti í samfélaginu, sagði Víðir. „Við vitum það að mikið návígi, jafnvel lítil partí, geta verið uppruni að alvarlegum smitum. Við viljum hitta fólk, maður er manns gaman, en á svona stundum og á svona tímum er mikilvægt að eiga það inni og skapa öðruvísi minningar. [...] Þetta er erfið staða og þungar fréttir sem við erum að færa í dag. En við höfum sýnt það áður og við ætlum að sýna það aftur að við getum tekist á við hvað sem er ef við stöndum saman.“
Hann sagði okkur hafa lært ýmislegt í vetur og að nú værum við að læra enn fleira. „Við getum öll gert aðeins betur, ef allir leggja sig örlítið betur fram þá náum við góðum árangri.“
Hans lokaorð á þessum fundi voru: „Við höfum sagt það áður og ég segi það aftur: Þetta verkefni er ALGJÖRLEGA í okkar höndum.“