„Það liggur auðvitað fyrir að við getum ekki haft landið lokað þangað til og ef bóluefni finnst,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra í hádegisfréttum RÚV í dag. Í viðtalinu var hún spurð út í skrif Gylfa Zoega hagfræðiprófessors um að stjórnvöld hafi gert mistök með því að opna landið fyrir ferðamönnum um miðjan júní. Í grein sem Gylfi skrifar í Vísbendingu sagði hann að með ákvörðunum sínum hafi stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem séu þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki og unnið með öðru fólki.
Þórdís sagði við RÚV að landinu hefði aldrei verið lokað heldur hafi á tímabili verið krafist tveggja vikna sóttkvíar farþega við komuna hingað. „Nú erum við að skima og höfum gögn sem sýna að það eru ekki nema örfáir erlendir ferðamenn sem reynast smitaðir á landamærunum. Af þessum litla hópi fólks sem hefur verið smitaður eru líka Íslendingar, bæði búsettir hér, að koma heim og svo framvegis. Þannig að áhættan er í mínum huga ásættanleg.“
Þá sagðist hún eiga erfitt með að samþykkja að innlend eftirspurn verði tryggð með fjármunum sem komi úr sameiginlegum sjóðum, „þegar fólk hefur ekki vinnu. Þannig að það er ekki sjálfbært heldur“.
Spurð hvort innlenda eftirspurnin muni ekki vega upp á móti því að halda landinu áfram lokuðu eins og áður var svaraði Þórdís að vissulega væri gott hversu innlenda eftirspurnin væri mikil „en áhættan af því að skima og hleypa fólki inn er svo lítil. Ég bara get ekki fallist á þau rök að hún sé svo mikil að það eigi bara að loka landi og ekki hleypa fólki inn – til þess að tryggja þessa innlendu eftirspurn. En þú byggir ekki heilsársrekstur á því að fá nokkrar góðar vikur þar sem að við sem leyfum okkur meira í mat og drykk erum að gera gott fyrir reksturinn. Svo áttu auðvitað eftir stóru hótelin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem staðan er hreint út sagt hörmuleg.“
Einnig sagði ráðherrann að til þess að halda efnahagslífinu gangandi „þá getum við ekki haft landamærin lokuð bara til eilífðarnóns“.
Beittu ekki beinum þrýstingi
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, var einnig spurður út í grein Gylfa í hádegisfréttum. Sagði hann ferðaþjónustuna ekki hafa beitt „neinum beinum þrýstingi“ til að landið yrði opnað fyrir ferðamönnum. Sóttvarnir hafi ráðið ferðinni en einnig hafi verið tekið tillit til efnahagslegra sjónarmiða við ákvörðunina. „Okkar hlutverk sem atvinnugreinar í þessu er að benda á hinn efnahagslega vanda sem fylgir því að vera með landið lokað fyrir ferðamönnum og fjórtán daga sóttkví á alla.“
Haft var eftir Jóhannesi í fréttatímanum að vitað hafi verið að önnur bylgja COVID myndi skella á. „Það liggur hins vegar í augun uppi að þegar innanlandssmit dreifast hratt er það ekki vegna þess að einhver hafi borið með sér veiru að utan heldur er það beinlínis vegna þess að við erum sjálf kannski ekki að sinna okkar persónulegu smitvörnum nægilega vel.“
Tæplega 78 þúsund farþegar hafa verið skimaðir við landamærin frá 15. júní. 33 hafa greinst með virkt smit og 101 með mótefni.
112 manns eru með COVID-19 hér á landi og því í einangrun. Um 950 eru í sóttkví. Einn sjúklingurinn er alvarlega veikur. Sá er á fertugsaldri, liggur á gjörgæslu Landspítalans og er í öndunarvél.