Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einagrun er nú orðinn 114 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is.
Þrjú ný tilfelli greindust innanlands í gær, öll hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Ekkert virkt smit greindist við landamærin. Í gær voru 946 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 962. Einn er í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans vegna sjúkdómsins.
397 sýni voru tekin og greind hjá Landspítalanum í gær. Engar upplýsingar eru birtar á Covid.is í dag um fjölda sýna hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hóf m.a. skimun í Vestmannaeyjum í gær. Hins vegar má sjá að þrír sjúklingar hafa bæst við á Suðurlandi frá því í gær og að 100 manns eru þar í sóttkví.
Af þeim sem eru með virkt smit eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 44. Níu á aldrinum 13-17 ára eru með COVID-19 og eitt barn yngra en tólf ára.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1958 manns greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.
„Næstu dagar munu skera úr um hvort hægt verði að fullyrða hvort að við höfum náð böndum á þessum faraldri,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í gær.
„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum í þessum aðgerðum,“ sagði landlæknir ennfremur. „Þessi veira er skæð og getur valdið veikindum hjá mjög mörgum ef ekkert er að gert. Það er umtalsverður hluti þeirra sem fær hana í sig sem veikist alvarlega.“
Benti Alma í því samhengi á að af þeim sem greindust í vetur hafi um 7 prósent á sjúkrahúsinnlögn að halda og 1,5 prósent á gjörgæsluinnlögn að halda. „Vissulega er áhættan mest fyrir þá eldri að veikjast alvarlega en það er samt þannig að fólk á öllum aldri getur orðið alvarlega veikt.“