„Mín skoðun er sú að það vanti svolítið hagrænt uppgjör á þeim aðgerðum sem verið er að grípa til og við höfum beðið stjórnvöld um að gera það,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. „Hvað skiptir þetta miklu máli fjárhagslega að gera þetta og hitt og þá geta menn bara valið. Það sem ég þarf að gera sem sóttvarnalæknir er að gefa stjórnvöldum val, hvað sóttvarnarlega séð felst í hverju vali fyrir sig.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var einnig viðmælandi í þættinum. Sagði hann ekki hægt að finna betri mann á jarðríki til að aðstoða stjórnvöld við að meta þá valmöguleika sem við stöndum nú frammi fyrir.
Þórólfur sagði greinilegt að veiran sýndi ekki á sér neitt fararsnið. Faraldurinn væri enn í miklum vexti á heimsvísu. „Það er alveg útséð um það í mínum huga að hún verður hér með okkur næstu mánuði og næstu ár þar til að einhver lausn, bóluefni eða annað, kemur. Og það er ekki alveg í augsýn.“
Þess vegna þurfi að fara að hugsa lengra fram í tímann. Hingað til hafi áherslan verið á að halda veirunni niðri, það mikið að hún skapi ekki álag á heilbrigðiskerfið, einstaklinga og starfsemi. Það hefur að sögn Þórólfs tekist ágætlega en að nú þurfi að horfa til framtíðar. „Það er ekki þannig að stjórnmálin hafi ekki verið með í þessu, það er náttúrlega ráðherra sem hefur á endanum ákveðið allar þessar aðgerðir. [...] En það þarf að fara að horfa til fleiri hagsmuna en bara hvernig við ætlum að halda veirunni niðri.“
Út frá sóttvarnalegu sjónarmiði þarf að fylgjast áfram með framgangi veirunnar. Önnur bylgja faraldursins sem nú er að ganga yfir hefur sýnt að lítið þurfi til, aðeins eina tegund af veirunni. Hún náði að búa um sig í samfélaginu og skaut svo allt í einu upp kollinum hér og þar. „Ef við viljum virkilega eiga þannig við veiruna að við viljum halda henni niðri og forða fólki frá því að veikjast eins mikið og hægt er þá verðum við að vera áfram á tánum.“ Hópsýkingar gætu komið upp aftur og þá þyrfti að bregðast við því. Á sama tíma þyrfti að reyna að halda uppi „eðlilegu lífi“ innanlands eins og hægt er. „En við þurfum að búa okkur undir annan raunveruleika heldur en við höfum lifað við fram að þessu.“
Meiri útbreiðsla þýðir meiri veikindi
Það muni koma til með að skerða starfsemi ýmiskonar og þess vegna finnst sóttvarnalækni mikilvægt að fleiri komi að borðinu. Hann ítrekaði að það væri hans hlutverk, fyrst og fremst, að meta aðstæður út frá sóttvarnalegu sjónarmiði. „Ég er ekki að taka öll hagræn sjónarmið inn í málið og það er klárt mál að þetta kemur illa við marga, mönnum finnst þetta óréttlátt.“ Því þurfi að hefja vinnu við sáttmála. „En ef við viljum halda veirunni í lágmarki þá þurfum við að gera þetta eins og við höfum verið að gera. Ef við viljum það ekki þá verðum við að sætta okkur við það að fá meiri útbreiðslu af veirunni, með meiri afleiðingum, með meiri þunga fyrir heilbrigðiskerfið.“
Hann benti á að landamæri Íslands hefðu aldrei verið alveg lokuð fyrir aðgerðirnar sem tóku gildi um miðjan júní, m.a. landamæraskimun í stað krafna um 14 daga sóttkví. Hann segir það hafa komið sér á óvart hversu margar undanþágubeiðnir frá settum reglum hafi borist frá atvinnulífinu. „Það virðist vera að erlent vinnuafl skipti bara öllu máli fyrir alla starfsemi hér innanlands.“ Nefndi hann fiskvinnslu, útgerð, iðnað, stóriðju – „nefndu það“. Ætlum við að stoppa það? Spurði Þórólfur og sagði að sérstök sóttkvíarúrræði hafi verið útbúin vegna þessara erlendu starfsmanna en að það væri þó ekki örugg aðferð. „Þannig að á endanum, þá er eiginlega alveg sama hvað við gerum þá getum við fengið veiruna hér inn og séð það sem er að gerast núna.“
Setja þarf fram skýra valmöguleika
Hann sagði það hlutverk yfirvalda að koma fólki í skilning um að hér væri verið að fást við alvarlega hluti. Tilmæli sóttvarnayfirvalda hafi að hans mati verið tiltölulega einföld en svo „rignir yfir okkur beiðnum um undanþágur. Við erum með fjölda manns í vinnu alla daga vikunnar við að svara beiðnum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og svo framvegis.“
Nú þurfi yfirvöld að setja fram skýra valmöguleika. Og undirbúa okkur fyrir næstu mánuði. „Við getum verið mjög hörð, við getum haft allt opið. Eða reynt að hafa einhverja stjórn á því. Það er mín skoðun og aðgerðir til þessa hafa gengið út á.“
Takmarkanir sem nú eru í gildi verða það til 13. ágúst. Þórólfur segir háværar kröfur frá mjög mörgum um að herða þær. Að „loka hreinlega“ og setja alla sem hingað koma í sóttkví. Svo eru aðrir sem vilji fara miklu vægar í takmarkanir en nú er. „Öll sjónarmið eru eiginlega uppi. Mitt hlutverk er að hlusta á þetta og taka einhverja skynsamlega ákvörðun varðandi þau tilmæli sem ég kem með til ráðherra.“
Kári telur skynsamlegast að loka landinu með skimun-sóttkví-skimun
Kári benti á að hópsmitið sem nú er verið að reyna að koma böndum á megi án mikils vafa rekja til eins einstaklings sem komið hefur hingað til lands. Af þeim sem greinst hafa með það afbrigði veiruna eru 32 einstaklingar sem ekki er hægt að rekja saman. „Það segir okkur að þó svo að skimunin gangi mjög vel þá nægir það ekki. Þannig að stóra spurningin sem við þurfum að horfast í augu við er hvort að við eigum að halda þessu áfram svona, taka þeim áföllum sem fylgja því að það blossi upp smit af þessari gerð,“ sagði Kári, „eða eigum við að loka landinu og krefjast þess að allir þeir sem hingað koma fari í skimun, svo í 5 daga sóttkví og svo aftur í skimun.“ Það myndi m.a. hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna. „En þetta er valið sem við þurfum að horfast í augu við. [...] Þetta er flókin pólitísk ákvörðun sem einhver verður að taka.“
Hans persónulega skoðun er sú að vænlegast væri að loka landinu á þessu augnabliki til að reyna að ná utan um þann faraldur sem er í gangi núna.
Sóttvarnalækni finnst þetta gild sjónarmið.
„Mín skoðun er sú að það vanti svolítið hagrænt uppgjör á þeim aðgerðum sem verið er að grípa til og við höfum beðið stjórnvöld um að gera það. Hvað skiptir þetta miklu máli fjárhagslega að gera þetta og hitt og þá geta menn bara valið. Það sem ég þarf að gera sem sóttvarnalæknir er að gefa stjórnvöldum val, hvað sóttvarnarlega séð felst í hverju vali fyrir sig.“
Enginn betri á jarðríki
Það segist hann hafa verið að gera. Ef landinu væri lokað með þeim takmörkunum sem Kári nefndi myndi það þýða fjöldann allan af beiðnum um undanþágur vegna erlends vinnuafls. „Þá getur það gerst, eins og gerðist núna, að það kemur einn einstaklingur, með eina veiru, sem nær að grafa um sig.“
Kári sagði rétt að ekki væri hægt að loka landinu alfarið en að hægt væri að gera þá kröfu að þeir sem komi fari í skimun-sóttkví-skimun, eins og hann nefndi áður. „En þetta er allt saman spurning um líkur.“ Við þær aðstæður sem nú væru uppi værum við að „þúsundfalda líkurnar“ á því að smit bærist til landsins.
Hann sagði að allar ákvarðanir ættu ekki að hvíla á herðum sóttvarnalæknis. „Stjórnvöld eiga að segja nú hvað þau vilja.“ Ekki væri til betri maður á jarðríki en Þórólfur til að aðstoða þau við það mat.