Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í bandarísku forsetakosningunum sem fram fara 3. nóvember næstkomandi, hefur valið Kamala Harris sem varaforsetaefni sitt.
Biden hafði gefið það út að hann myndi velja konu í hlutverkið en margar voru taldar koma til greina. Harris, sem er öldungadeildarþingmaður Kaliforníuríkis og fyrrum umdæmissaksóknari, sóttist eftir útnefningu Demókrata sem forsetaefni flokksins og þótti nokkuð líkleg í baráttunni um hana á tímabili, sérstaklega eftir harkalega gagnrýni á Biden í kappræðum um málefni minnihlutahópa fyrir rúmu ári síðan. Hún dró sig þó síðar í hlé í desember í fyrra.
Harris er 55 ára og því 22 árum yngri en Biden, sem verður elsti Bandaríkjaforseti sögunnar þegar hann tekur við embætti hljóti hann kjör.
Biden hefur haft gott forskot á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og forsetaefni Repúblikanaflokksins í komandi kosningum, samkvæmt könnunum. FiveThity Eight, sem vigtar gerðar kannanir, segir til að mynda að Biden sé með 8,3 prósentustiga forystu á Trump á landsvísu. Auk þess hefur Biden verið að mælast með meira fylgi í mikilvægum sveifluríkjum sem Trump sigraði í 2016, og þarf að sigra aftur til að eiga möguleika á að sitja annað kjörtímabil.