Alexander Lúkasjenkó, sem oft er kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“, var enn á ný endurkjörinn forseti Hvíta-Rússlands um helgina, með rúmum 80 prósentum atkvæða. Þetta er samkvæmt opinberum niðurstöðum kosninganna, sem flestir efast um, enda fengu fáir ef nokkrir kosningaeftirlitsmenn frá lýðræðisríkjum að fylgjast með þeim. Lúkasjenkó hefur verið í embætti allt frá árinu 1994, en það var líka í síðasta sinn sem þokkalega frjálsar kosningar fóru fram í landinu.
Mótframbjóðandi hans, Svetlana Tsikanovskaja, flúði til Litháen í nótt, eftir að hafa verið hneppt í varðhald í nokkra klukkutíma í gær í kjölfar þess að hún fór til yfirvalda með formlega kvörtun yfir framkvæmd kosninganna. Hún neitar enn að viðurkenna ósigur og telur sig hafa hlotið meirihluta atkvæða.
Framboð hennar bar nokkuð brátt að. Eiginmaður hennar Sergei, sem er vinsæll bloggari, var handtekinn þegar hann hugðist sjálfur gefa kost á sér. Börn þeirra eru búin að vera í Litháen undanfarnar vikur, öryggis þeirra vegna.
Mikil mótmæli brutust út í höfuðborginni Minsk og fleiri borgum landsins eftir kosningarnar á sunnudaginn, nokkuð sem hefur ekki sést í þau fjölmörgu önnur skipti sem grunur hefur verið uppi um að kosningaúrslitum hefur verið hagrætt. Stjórnvöld brugðust harkalega við og takmörkuðu til dæmis internetnotkun í landinu til þess að gera mótmælendum erfiðara um vik við að skipuleggja sig og deila myndböndum af ofbeldi valdstjórnarinnar.
Stjórnarandstaðan í landinu og framboð Tsikanovskaju virðist hafa átt mun meiri raunverulegan hljómgrunn í landinu en þau 9,9 prósent sem komu upp úr kjörkössunum að sögn yfirvalda. „Ég trúi augum mínum, og ég sé að meirihlutinn er með okkur,“ sagði Tsikanovskaja við fréttamenn á sunnudagskvöld.
Lúkasjenkó hefur vísað þessu alfarið á bug og kallað þá sem mótmælt hafa á götum úti „kindur“ sem stjórnað sé af utanaðkomandi öflum.
Gagnrýni að vestan
Ýmis Evrópusambandsríki og Bandaríkin hafa fordæmt eða lýst yfir áhyggjum af framkvæmd kosninganna á sunnudaginn og það hefur utanríkisráðherra Íslands einnig gert.
„Áreitni og ofbeldi gagnvart fólki sem er að nýta sér grundvallarmannréttindi sín eru óásættanleg,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson í færslu á Twitter í gær, en þetta voru viðbrögð hans við því hvernig lögregla beitti sér gegn mótmælendum í Minsk og víðar á sunnudagskvöld.
Sem áður segir voru fáum ef nokkrir kosningaeftirlitsmenn frá lýðræðisríkjum leyft að fylgjast með kosningunum í Hvíta-Rússlandi, en einhverjir slíkir voru handteknir af öryggislögreglu landsins á kjördag.
Teymi kosningaeftirlitsmanna frá Rússlandi og öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum samþykkti hins vegar framkvæmdina og sagðist ekki hafa fundið nein merki þess að spurningamerki mætti setja við lögmæti kosninganna.
Smá gagnrýni að austan
Þrátt fyrir að Lúkasjenkó hafi fengið hamingjuóskir með endurkjörið frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta hafa rússneskir fjölmiðlar þó sumir sett gagnrýnt framkvæmd kosninganna og framgöngu Lúkasjenkó og lögreglu landsins gegn mótmælendum með eindregnum hætti.
Steve Rosenberg, fréttaritari BBC í Moskvu, vekur athygli á þessu í pistli sínum um skrif rússnesku miðlanna í dag, en pistil hans má heyra má hér að neðan.
Interesting that while Russian state TV channels are (for now) siding with Lukashenko, in the Russian press there’s considerable sympathy for protestors in #Belarus. Here's the latest reaction. #ReadingRussia @BBCNews @BBCWorld pic.twitter.com/QHbUrGUDV8
— Steve Rosenberg (@BBCSteveR) August 11, 2020
Í rússneska dagblaðinu Novaya Gazeta segir til dæmis í dag að Lúkasjenkó hefði ekki átt að gerast svona gráðugur.
Dagblaðið segir að ef Lúkasjenkó hefði skipað sínu fólki í kosningaeftirlitinu að láta sig hafa einungis 55-60 prósent atkvæða upp úr kjörkössunum í þetta sinn, en ekki 80 prósent eins og venjulega, hefðu Vesturlönd ef til vill getað sætt sig við niðurstöðuna og Tsikanovskaja sömuleiðis viðurkennt hana opinberlega, þrátt fyrir að Hvítrússar hefðu ekki trúað þeim frekar en úrslitum fyrri ára.
Eru breytingar framundan?
En munu mótmæli og ákúrur frá lýðræðisríkjum einhverju breyta, í þetta sinn? Sumir Hvítrússar bera þá von í brjósti. Skali mótmælanna er allur annar en áður hefur verið, sagði Yuri Puchila, tæplega þrítugur íbúi í Minsk í samtali við New York Times.
„Ég held að þetta muni ekki fjara út. Fólk mun fara í verkfall. Ég, til dæmis, ætla ekki að borga skattana mína lengur,“ sagði Puchila við blaðið.
Fordæmingu vestrænna ríkja gætu einnig fylgt einhverjar refsiaðgerðir. Í gær óskaði ríkisstjórn Póllands, sem á landamæri að Hvíta-Rússlandi, eftir neyðarfundi hjá Evrópusambandinu til þess að ræða hvernig sambandið ætti að bregðast við sviknum kosningum sunnudagsins og óþörfu ofbeldinu sem fylgdi í kjölfarið.
Evrópusambandið setti viðskiptaþvinganir á Hvítrússa árið 2004, en flestum þeirra var aflétt árið 2016, í von um að Lúkasjenkó myndi draga úr gerræðislegum tilburðum sínum. Þeir virðast þó ekki fara þverrandi, nema síður sé.