Þorgeir Óskar Margeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eldvarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) en stefnt er að því að eldvarnasvið taki til starfa á Sauðárkróki þann 1. október næstkomandi. Þetta kemur fram í svari HMS við fyrirspurn Kjarnans um fyrirhugaðan flutning eldvarnasviðs frá Reykjavík til Sauðárkróks.
Í svarinu segir að Þorgeir hafi fengið mikinn áhuga á öllu því sem snúi að öryggismálum, eldvörnum og slökkvistarfi í starfi sínu hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli á árunum 1999 til 2001. Frá þeim tíma hafi Þorgeir lagt sérstaka áherslu á þá þætti í námi sínu og störfum. „Í framhaldsnáminu sínu í verkfræði lagði Þorgeir sérstaka áherslu á burðarþol, steypu og verkefnastjórnun og fjallaði lokaverkefni hans um áhrif elds á steinsteypu í jarðgöngum,“ segir þar enn fremur.
Enginn af núverandi starfsmönnum mun flytja
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti um flutninginn í lok maí á þessu ári á kynningarfundi á starfsstöð HMS á Sauðárkróki. Þar kynnti hann margþættar aðgerðir sem hann hugðist ráðast í til þess að efla umgjörð brunavarna á Íslandi og bregðast þannig við ábendingum sem gerðar voru í nýrri skýrslu um málaflokkinn.
Enginn af þeim fjórum starfsmönnum sem nú starfa við deild brunavarna hjá HMS mun fylgja eldvarnasviði norður á Sauðárkrók. Í áðurnefndu svari frá HMS segir tveir starfsmenn hafi þegið störf í öðrum deildum HMS en tveir hafi sagt upp störfum.
Sjö stöður á Sauðárkróki auglýstar
Vegna flutnings eldvarnasviðs til Sauðárkróks voru sjö stöður innan sviðsins auglýstar, auk stöðu framkvæmdastjóra. Umsóknarfrestur um störfin rann út 30. júlí síðastliðinn. „Verið er að vinna úr þeim umsóknum sem bárust um þessi störf og munu ráðningarviðtöl hefjast á næstu dögum. Við teljum að í hópi umsækjenda séu fjölmargir aðilar með þá þekkingu og hæfni sem við leitum að og teljum nauðsynlega til að brunavarnasviðið geti sinnt sínu hlutverki vel,“ segir í áðurnefndu svari HMS.
Þá segir í svarinu að vandlega hafi verið staðið að undirbúningi nýs eldvarnasviðs á Sauðárkróki. „Sérstaklega hefur verið hugað að þeim þætti sem snýr að mannauðsmálum í ferlinu og undirbúningi flutnings og hefur mannauðsstjóri HMS tekið virkan þátt í undirbúningi flutningsins og framkvæmd. Gott samkomulag er við alla núverandi starfsmenn brunavarnadeildar í Reykjavík um að þeir sinni sínum verkefnum í brunamálum þar til nýir aðilar hafa komið til starfa og tekið við keflinu og yfirfærsla þekkingar er þar með tryggð.“