Starfsmaður dreifingarfyrirtækis í Bretlandi veitti umboðsmanni hljómsveitarinnar Hjaltalín þau svör að Ísland væri eitt af löndunum sem fyrirtækið ætti ekki að millifæra til vegna aðgerða til þess að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðsmaður hljómsveitarinnar greindi frá þessu á Twitter í dag. Í samtali við Kjarnann segir hann að Hjaltalín hafi átt inni pening hjá þessu tiltekna fyrirtæki, en fyrirtækið hafi verið að uppfæra kerfin hjá sér og því hafi hann þurft að setja aftur inn bankaupplýsingar sveitarinnar.
Það reyndist hins vegar ekki hægt, segir Steinþór. Að gefa upp íslenskan bankareikning var einfaldlega ekki í boði, þrátt fyrir að hægt væri að velja bankareikninga í ríkjum á borð við Afganistan og Sýrland. Þegar skýringa var leitað bárust þau svör sem nefnd eru hér að ofan.
Steinþór segir að hljómsveitin muni sækja peningana eftir öðrum leiðum en bankamillifærslu. Hann hendir gaman að málinu, birtir mynd af sveitinni og spyr: „Lítum við út eins og hryðjuverkamenn, Hr. Brown?” eins og fjöldi Íslendinga gerði um árið.
Do we look like terrorist, Mr. Brown? pic.twitter.com/MHqBhVOCfU
— Steinþór Helgi (@StationHelgi) August 12, 2020
Ísland hefur verið á gráa lista Financial Action Task Force (FATF) frá því í október í fyrra og greint hefur verið frá því að dæmi séu um að greiðslur til íslenskra viðskiptabanka- eða viðskiptamanna þeirra hafi tafist af þeim sökum, sem og að erlendir bankar hafi alfarið hafnað því að hafa milligöngu um greiðslur til og frá landinu, eins og virðist tilfellið í samskiptum Hjaltalín við breska fyrirtækið.
Stjórnvöld búast við því að losna af listanum í október
Á allsherjarfundi FAFT í júnímánuði var niðurstaða sérfræðingahóps sem hefur metið þær úrbætur sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að til þess að losna af gráa listanum væri lokið með fullnægjandi hætti.
Ferlinu er þó ekki alveg lokið, því samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda um málið er búist við því að fulltrúar þessa sama sérfræðingahóps komi til Íslands í byrjun september í vettvangsathugun, til þess að staðfesta árangurinn.
Ef vettvangsathugunin staðfestir árangur Íslands varðandi þær úrbætur sem farið var fram á má gera ráð fyrir að lögð verði fram tillaga um að Íslands verði tekið af gráa listanum á fundi sem ráðgert er að halda í október.