Olíufélagið Skeljungur festi á liðnum ársfjórðungi kaup á fjórðungshlut í bæði Brauð&Co ehf. og Gló ehf., sem reka samnefnd bakarí og veitingastaði. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Skeljungs, sem birt var í dag.
Markmiðið með kaupunum er að nýta staðsetningar Skeljungs betur ásamt því að bjóða upp á fjölbreyttara vöruúrval í verslunum félagsins, segir Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs, í tilkynningu um árshlutauppgjörið.
Þar segir ekkert um kaupverðið, en hjónin Birgir Þór Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir hafa verið meirihlutaeigendur í bæði Brauð & Co og Gló undanfarin ár í gegnum Eyju fjárfestingarfélag.
Bakaríið Brauð & Co hefur verið í örum vexti undanfarin ár, en það opnaði fyrstu verslun sína á Frakkastíg í mars árið 2016. Núna eru bakaríin orðin sex talsins á höfuðborgarsvæðinu.
Ágúst Fannar Einþórsson bakari seldi hlut sinn í fyrirtækinu til meðstofnenda sinna, Birgis og Þóris Snæs Sigurjónssonar í fyrra, en árið 2018 velti félagið tæpum 700 milljónum króna og hagnaðist um 6,9 milljónir.
Birgir og Eygló Björk eignuðust Gló að fullu í fyrra, en þá seldu hjónin Sólveig Eiríksdóttir og Elías Guðmundsson 30 prósenta hlut sinn til þeirra. Veitingastaðurinn hefur verið í útrás og opnaði sinn fyrsta stað í Danmörku árið 2017.
Nokkur samlegð hefur verið í rekstri fyrirtækjanna tveggja undanfarin ár, en til dæmis eru bakarí Brauð og Co. og veitingastaður Gló til húsa í sama húsnæði í Skeifunni.