Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi fari í 8,6 prósent í ágústmánuði, en það var 7,9 prósent í júlí. Að viðbættu mældu atvinnuleysi vegna hlutabótaleiðarinnar svokölluðu, sem felur í sér skert starfshlutfall, mældist atvinnuleysið 8,8 prósent um síðustu mánaðamót og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar verður það 9,0 prósent í lok yfirstandandi mánaðar.
Alls voru 17.104 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu um síðustu mánaðamót og 3.811 á hlutabótaleiðinni. Samtals voru því 21.435 manns án atvinnu að öllu leyti eða hluta í lok júlí. Af þeim eru 7.830 erlendir ríkisborgarar, en heildaratvinnuleysi á meðal þeirra er yfir 20 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar sem birt var í dag og sýnir stöðu mála á vinnumarkaði um síðustu mánaðamót.
Atvinnuleysi er nú orðið hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er ívið hærra meðal karla.
Fimmti hver útlendingur á vinnumarkaði án atvinnu
Erlendir ríkisborgarar léku lykilhlutverk í hagvaxtarskeiðinu sem hófst árið 2011 og ómögulegt hefði veið að manna öll þau störf sem sköpuðust á tímabilinu ef ekki hefði verið fyrir erlent vinnuafl. Frá miðju ári 2012 og fram til loka júnímánaðar fjölgaði þeim úr 20.570 í 50.701 hérlendis, eða um yfir 30 þúsund. Af þeim eru um 75 prósent á vinnumarkaði.
Rúmlega fjórðungur erlends vinnuafls hérlendis a síðasta ári starfaði í ferðaþjónustu. Þessi hópur varð því sá fyrsti til missa vinnuna þegar mikill samdráttur varð í ferðaþjónustu samhliða kórónuveirufaraldinum.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 20,5 prósent í júlí. Það þýðir að fimmti hver erlendur ríkisborgari á íslenskum vinnumarkaði var án atvinnu um síðustu mánaðamót, eða alls 6.909 manns. Auk þess voru 921 erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleiðinni. Í fyrra á sama tíma var 2.571 erlendur ríkisborgari án atvinnu og hefur þeim sem eru almennt atvinnulausir því fjölgað um 169 prósent fá einu ári.
Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá komu frá Póllandi eða 3.520, sem er um 51 prósent allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Pólverjar eru langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara sem búsettur er á Íslandi, en alls voru þeir 20.904 í lok júlí. Það þýðir að 41 prósent erlendra ríkisborgara hér á landi eru pólskir ríkisborgarar.