Þeir fjórir flokkar sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur myndu fá um 58 prósent fylgi ef kosið yrði í dag, samkvæmt könnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið. Þrír flokkanna: Píratar, Viðreisn og Vinstri græn, myndu bæta við sig fylgi en Samfylkingin, flokkur Dags B. Eggertssonar, myndi tapa fylgi. Samfylkingin yrði samt sem áður stærsti flokkurinn í meirihlutasamstarfinu.
Ef kosið yrði í dag, og niðurstaðan yrði í samræmi við könnun Zenter,þá myndi meirihlutinn bæta við sig þremur borgarfulltrúum og fá 15 í stað tólf, en alls sitja 23 í borgarstjórn. Staða hans er því að styrkjast umtalsvert, samkvæmt könnuninni.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar allra flokka mest og fer úr 30,8 prósentum í borgarstjórnarkosningunum sem fóru fram 2018 í 23,4 prósent. Það þýðir að flokkurinn hefur tapað 7,4 prósentustigum á fyrstu rúmu tveimur árum kjörtímabilsins, en yrði áfram stærsti flokkurinn í Reykjavík. Hann myndi hins vegar tapa tveimur af átta borgarfulltrúum sínum og fá sex. Fylgi flokksins í Reykjavík í dag er mjög svipað og það er að mælast á landsvísu.
Píratar og Vinstri græn bæta vel við sig
Píratar myndu bæta mest við sig ef kosið yrði í höfuðborginni nú og tvöfalda fjölda borgarfulltrúa, fá fjóra í stað tveggja. Fylgi flokksins mælist nú 15,9 prósent en Píratar fengu 7,7 prósent atkvæða 2008. Það myndi því rúmlega tvöfaldast.
Vinstri græn myndu líka bæta verulega við sig, en flokkurinn beið afhroð í borginni 2018 þegar hann fékk einungis 4,6 prósent atkvæða og einn borgarfulltrúa. Samkvæmt könnun Zenter mælist hann nú með 11,4 prósent fylgi og myndi því bæta við sig 5,8 prósentustigum. Það fylgi er í takt við það sem Vinstri græn eru að mælast með á landsvísu.
Bæði Píratar og Vinstri græn myndu bæta við sig tveimur borgarfulltrúum, en Píratar eru í dag með tvo og Vinstri græn einn.
Fylgi fjórða flokksins í meirihlutanum, Viðreisnar, rís líka en alls segjast 11,2 prósent borgarbúa styðja flokkinn, sem er þremur prósentustigum meira en í síðustu borgarstjórnarkosningum. Það myndi skila flokknum einum viðbótar borgarstjórnarfulltrúa við þá tvo sem hann er með í dag.
Flokkur fólksins myndi tapa borgarfulltrúa
Sósíalistaflokkurinn er eini flokkur minnihlutans í Reykjavík sem myndi bæta við sif fylgi ef kosið yrði nú. Hann myndi fá 7,1 prósent atkvæða en fékk 6,4 prósent þegar kosið var síðast. Það myndi þó ekki breyta fjölda borgarfulltrúa sem flokkurinn hefur, hann myndi áfram hafa einn.
Miðflokkurinn myndi tapa 1,3 prósentustigum, og fá 4,8 prósent fylgi, og vera áfram með einn borgarfulltrúa og Flokkur fólksins myndi fara úr 4,3 prósentum í 2,9 prósent og tapa sínum borgarfulltrúa.
Framsóknarflokkurinn, sem fór afar illa út úr síðustu borgarstjórnarkosningum þegar hann fékk einungis 1.870 atkvæði, eða 3,2 prósent þeirra sem voru greidd, myndi fá enn verri útreið ef kosið yrði í dag. Einungis 2,6 prósent borgarbúa styðja flokkinn.