Íslendingar virðast hafa aukið neyslu innanlands um jafnmikið og þeir hefðu annars eytt erlendis, ef marka má tölur um kortaveltu. Aukin kortavelta landsmanna innanlands í júní náði að bæta upp meira en helmingi af tapinu sem hlaust af fækkun erlendra ferðamanna á tímabilinu.
Þetta kom fram í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg sjónarmið um sóttvarnarráðstafanir á landamærum sem lagt var fram á ríkisstjórnarfundi í gær.
Aukin innlend eftirspurn vegur þungt
Í minnisblaðinu kom fram að innlend eftirspurn hafi tekið hraðar við sér en búist var við í fyrstu, og er árangur í sóttvörnum talinn skipta þar miklu máli. Eftirspurnaraukningin er sagður hafa vegið þungt á móti samdrætti í útfluttri ferðaþjónustu, en vegna þess er búist við að einkaneysla hafi verið mun sterkari á öðrum ársfjórðungi en gert var ráð fyrir fyrr í sumar.
Íslendingar juku heildarkortaveltu í júní
Því til stuðnings nefnir minnisblaðið að Íslendingar virðast hafa bætt upp fyrir tapaða neyslu erlendis með því að neyta meira innanlands. Samkvæmt tölum um kortaveltu í júní síðastliðnum virðist heildarneysla Íslendinga raunar hafa aukist, en velta þeirra erlendis dróst saman um 9 milljarða króna á meðan hún jókst innanlands um 13 milljarða króna miðað við sama mánuð í fyrra.
Aukningin jafngildir um 57% af samdrætti í kortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi á sama tíma, en hann nam 26 milljörðum krónum.
Svipað á teningnum í júlí
Samkvæmt nýútgefnum tölum Seðlabankans um kortaveltu Íslendinga virðist svipað vera á teningnum í júlí, en þá jókst velta Íslendinga innanlands um 9,2 milljarða króna. Aukningin kom einnig í stað neyslu Íslendinga erlendis á þeim tíma, en hún dróst einungis saman um 8,1 milljarð króna. Ef tekið er tillit til verðbólgu og gengisbreytinga stóð heildarvelta Íslendinga nánast í stað í júlí.
Skimun þjóðhagslega hagkvæm
Kjarninn hefur fjallað ítarlegar um minnisblað fjármála- og efnahagsráðherra, en þar var hagrænt mat lagt á kostnaðinn við skimun á landamærum. Samkvæmt því hnigu rök frekar að harðari sóttvarnarráðstöfunum en lakari, en efnahagslegur ávinningur við að forðast harðar sóttvarnaraðgerðir er talinn nema hundruðum milljarða.
Í ljósi þess ávinnings er því haldið fram að skimun á landamærum sé þjóðhagslega hagkvæm. Einnig kemur fram í minnisblaðinu að ferðamenn ættu sjálfir að greiða fyrir þann samfélagslega kostnað sem hlýst af komu þeirra til landsins, en gjaldið er talið koma í veg fyrir „óhagkvæma áhættutöku".