Öllum ætti að vera að ljóst að tveggja metra reglan var sett fram sem hluti af mikilvægum sóttvarnaráðstöfunum sem snúa beint að ábyrgð einstaklinga, rétt eins og það að gæta að reglubundnum handþvotti, spritta hendur og að fara ekki til vinnu eða á mannamót finni fólk fyrir einkennum sem gætu tengst COVID-19.
Ekki er þó kveðið á um ótvíræða skyldu einstaklinga til að halda tveggja metra fjarlægð við þá sem búa á öðrum heimilum í gildandi auglýsingu um takmarkanir á samkomum.
Þetta segir í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um tveggja metra regluna og þann misskilning um hvernig beri að fylgja henni, sem virðist vera ansi útbreiddur í samfélaginu.
Sumir hafa túlkað orð ráðamanna og tilmæli stjórnvalda frá því að hert var á takmörkunum á ný, með þeim hætti að tveggja metra reglan væri nú algjör skylda á milli fólks sem býr ekki á sama heimili. Orðsendingu þess efnis hefur m.a. verið beint að almenningi á vefnum covid.is, en nú stendur reyndar til að breyta því, samkvæmt því sem Víðir Reynisson segir við RÚV.
Vinkonuhittingur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra á laugardag hefur verið í kastljósinu frá því í gær, enda birtust myndir þaðan í fjölmiðlum sem sýndu glögglega að tveggja metra reglan var ekki virt þeirra á milli.
Þórdís Kolbrún, sem sjálf skrifaði nýlega að mestu skipti í baráttunni við veiruna að hvert og eitt okkar gæti að sóttvörnum í okkar daglega lífi, sagði að hún hefði setið með vinkonum sínum á borði „eins og vinir gera sem borða saman.“
Kjarninn beindi fyrirspurn til heilbrigðisráðuneytisins í dag vegna málsins og spurði einfaldlega hvort að það væri svo að fólk mætti velja sér vini til þess að hitta án þess að virða tveggja metra regluna.
Á ábyrgð hvers og eins
Svarið var sem áður segir á þá leið að öllum ætti að vera ljóst að tveggja metra reglan væri mikilvæg sóttvarnaaðgerð, rétt eins og handþvottur og annað sem brýnt hefur verið fyrir almenningi. En hún er þó ekki fest í neinar útgefnar reglur hvað einstaklinga varðar.
„Gildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum kveður þannig ekki á um ótvíræða skyldu einstaklinga til að halda tveggja metra fjarlægð við aðra en þá sem það deilir með heimili,“ segir í svari ráðuneytisins, sem vísar í 3. grein auglýsingarinnar þar sem segir að hvar sem fólk komi saman skuli tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.
„Eins og fram kom hjá sóttvarnalækni á upplýsingafundinum kl. 14 í dag þá kveður þetta ákvæði á um skyldur rekstraraðila til að haga málum þannig að þeir sem ekki deila heimili geti haft a.m.k. tvo metra á milli sín. Í skólum gildir annað, þ.e. eins metra regla og síðan er sérstakt ákvæði um starfsemi þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra reglu vegna eðlis starfseminnar en við þær aðstæður er kveðið á um grímur,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að fólk þyrfti að bera ábyrgð á sínum athöfnum og að tveggja metra reglan ætti aðallega við um umgengni við einstaklinga sem maður þekkti engin deili á.
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) August 17, 2020