Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti vegna sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum nemur að meðaltali um fjórum milljörðum króna á ári síðustu fimm ár á föstu verðlagi ársins 2019. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, um tekjur ríkissjóðs vegna sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Lyfseðilsskyld lyf eru í almennu þrepi virðisaukaskatts og bera því 24 prósent virðisaukaskatt.
Fyrirspurn Þorsteins var svohljóðandi: „Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af virðisauka vegna sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum hvert ár árin 2015–2019 á föstu verðlagi?“ Á tímabilinu sem um ræðir nam heildarverðmæti lyfseðilsskyldra lyfja samkvæmt skjalakerfi Sjúkratrygginga Íslands rúmum 97 milljörðum.
Um fjórir milljarðar í skatttekjur á ári
Á tímabilinu námu tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti vegna sölu lyfseðilsskyldra lyfja alls tæpum 19 milljörðum eða tæpum 3,8 milljörðum á ári að meðaltali. Tekjurnar uxu ár frá ári, voru tæpir 3,3 milljarðar árið 2015 en voru rúmir 4,4 milljarðar árið 2019.
Á föstu verðlagi ársins 2019 námu virðisaukaskattstekjur ríkisins af sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum að meðaltali rúmum fjórir milljörðum á ári. Eðli málsins samkvæmt uxu þær líka ár frá ári. Á föstu verðlagi ársins 2019 námu tekjurnar rúmum 3,1 milljarði árið 2015, árið síðar námu þeir rúmum 3,6 milljörðum, árið 2017 námu þeir tæpum 4,1 milljarði og árið 2018 rúmum 4,3 milljörðum.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra segir um staðvirðingu: „Við staðvirðingu til verðlags ársins 2019 er miðað við að meðallyfjaverðskrárgengi evru vegi 85% og vísitala neysluverðs (VNV) vegi 15%.“
Miðflokkurinn vill að lyf séu á viðráðanlegu verði
Í stefnu Miðflokksins sem finna má á vef flokksins segir meðal annars að setja eigi stefnu um Sjúkratryggingar Íslands. „Greiðsluþátttaka sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma verði felld niður. Ráðast þarf í heildarendurskoðun vegna þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda vegna lyfja- og ferðakostnaðar.“
Þá segir þar einnig að flokkurinn leggi áherslu á að sjúklingum verði ávallt ávísað virkustu lyfjum sem fyrirfinnast á markaðnum hverju sinni og að læknar og, eftir atvikum sjúklingar, „hafi greiðan aðgang að frumlyfjum til ávísunar á viðráðanlegu verði.“