Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Icelandair Group ríkisábyrgð á lánalínu upp á allt að 130 milljónir dala, eða 16,5 milljarða króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út í dag. Ábyrgðin mun nema 90 prósent af lánsfjárhæðinni og er háð samkomulagi aðila um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.
Það er ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, sem munu veita lánalínuna.
Fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair Group var í gær frestað fram í september. Upphaflega stóð til að hlutafjárútboðið færi fram í júní en ekki náðist að standa við þá tímalínu og því frestað fram í ágúst. Nú hefur það færst enn aftar.
Upphaflega stóð til að safna allt að 200 milljónum dölum, um 27,5 milljörðum króna, í útboðinu. Nú hefur verið ákveðið að lækka þá upphæð og er nú stefnt að því að selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu ein króna á hlut. Það er mun lægra gengi en er á bréfum Icelandair í Kauphöll Íslands en við lokun markaða í dag var það 1,64 krónur á hlut. „Komi til umframeftirspurnar í hlutafjárútboðinu, myndi stjórn félagsins hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna,“ sagði í tilkynnIngunni í gær.