Alls hafa verið greiddar út 191 milljón króna vegna launa fólks sem þurft hefur að fara í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins, en hægt var að sækja um greiðslu frá Vinnumálastofnun vegna þessa til 1. júlí síðastliðins.
Gert hafði verið ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs vegna launagreiðslna í sóttkví yrði um tveir milljarðar króna og því ljóst að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðarinnar verður mun lægri en áður var talið.
Þetta kemur fram í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, og var lagt fyrir ríkisstjórn síðastliðinn föstudag.
Þar segir enn fremur að mun færri hafa nýtt sér úrræðið en reiknað var með „þrátt fyrir að 23.604 hafi lokið sóttkví frá því í lok febrúar.“
Samkomulag við upphaf faraldurs
Ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands komust að samkomulagi um hvernig staðið verði að launagreiðslum til fólks sem þarf að vera í sóttkví vegna COVID-19 5. mars síðastliðinn, þegar kórónuveirufaraldurinn var farin að láta verulega á sér kræla hérlendis.
Stjórnvöld myndu svo beita sér fyrir því að breytingar yrðu gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekandi sem greiðir launamanni, sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví, laun, „geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar upp að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér.“