Alls hafa 567 fyrirtæki sótt um sérstök stuðningslán, sem ríkisstjórnin kynnti til leiks í vor vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á efnahagslífið. Heildarfjárhæð umsókna til þessa nemur 5,1 milljarði króna, en 237 umsóknir hafa verið afgreiddar og nemur fjárhæð útgreiddra stuðningslána 1,9 milljarði til þessa.
Þetta kemur fram á nýrri upplýsingasíðu ríkisstjórnarinnar um þær efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til vegna veirufaraldursins og hvernig þær hafa verið nýttar til þessa.
Stuðningslán eru rekstrarlán ætluð minni fyrirtækjum, eða þeim sem höfðu tekjur á bilinu níu til 1.200 milljónir króna árið 2019. Til þess að uppfylla skilyrði lánanna þurfa fyrirtæki að hafa upplifað að minnsta kosti 40 prósenta tekjusamdrátt á 60 daga tímabili, frá 1. mars til 30. september miðað við sama 60 daga tímabil í fyrra og launakostnaður þarf sömuleiðis að hafa numið að minnsta kosti 10 prósentum af rekstrargjöldum ársins 2019.
Fleiri skilyrði eru einnig sett á lántekendur, en þeir mega ekki hafa greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni eða veitt nákomnum aðilum lán frá 1. mars 2020. Þá mega lántakendur ekki vera í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur í 90 daga né í vanskilum með opinber gjöld.
Lánin geta numið allt að 10 prósentum af tekjum fyrirtækja á árinu 2019 og eru lánin með fullri ríkisábyrð upp að 10 milljónum króna, en svo er einnig hægt að sækja um viðbótarlán til bankanna sem eru með 85 prósent ríkisábyrgð og geta þau að hámarki orðið 40 milljónir króna.
Einungis kunnugt um eitt brúarlán
Fram kemur á upplýsingavef stjórnvalda að fjármála- og efnahagsráðuneytinu sé einungis kunnugt um að eitt brúarlán hafi verið veitt til þessa, en rétt eins og stuðningslánin eru það lán með ríkisábyrgð, sem getur numið allt að 70 prósentum í tilfelli brúarlánanna.
Lánin geta að hámarki numið 1,2 milljörðum króna. Eina lánið sem yfirvöldum er kunnugt um að hafi verið afgreitt frá því að bankanir fóru að bjóða upp á þau var lán frá Arion banka til Icelandair Hotels, sem einmitt fór upp í það þak.
Brúarlánin voru ein helsta efnahagsaðgerðin sem stjórnvöld kynntu til leiks vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins í marsmánuði og var þá áætlað að þau myndu nema að hámarki 70 milljörðum króna.
Fyrirtæki virðast þó hafa verið treg til að sækja um þessa tegund lána og sagði Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda við Stöð 2 í síðustu viku að hann teldi skilyrði lánanna of flókin og fela í sér of miklar kvaðir.
„Þar að auki eru þau bara að hluta til með ríkisábyrgð og okkur sýnist að bankarnir séu bara einfaldlega ekki tilbúnir að taka á sig áhættu sem getur fylgt veitingu brúarlánanna,“ sagði Ólafur við Stöð 2.