Virðisaukaskattskyld velta einkennandi greina ferðaþjónustu dróst saman um 59 prósent í mars og apríl samanborið við sömu mánuði í fyrra samkvæmt nýuppfærðum skammtímahagvísum í ferðaþjónustu sem Hagstofan heldur utan um. Í mánuðunum tveimur nam veltan í ár 34 milljörðum króna en 84 milljörðum í fyrra.
Í tilkynningu Hagstofunnar vegna útgáfu hagvísanna segir að í mars hafi 23 þúsund verið starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu eða um 12 prósent færri en á sama tíma í fyrra. „Flestir voru starfandi við rekstur gististaða og veitinga, eða tæplega 14 þúsund, sem er 14% lækkun borið saman við sama mánuð árið áður. Á tímabilinu apríl 2019 til mars 2020 fækkaði starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 6% samanborið við síðustu 12 mánuði þar áður,“ segir í tilkynningunni.
Viðbúið er að fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu eigi eftir að lækka í hagvísum Hagstofunnar á komandi mánuðum. Í nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar sem fjallar um júlí kemur fram að um 7.700 manns hafi verið sagt upp í hópuppsögnum frá því í mars, að stærstum hluta í ferðaþjónustu. Þá hefur atvinnulausum í almenna bótakerfinu fjölgað hlutfallslega meira meðal fólks úr ferðaþjónustutengdum greinum á síðustu mánuðum samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar.
Mikill samdráttur gistinátta í sumar
Í nýjustu útgáfu skammtímahagvísa í ferðaþjónustu eru, meðal annars, birtar uppfærðar tölur um gistinætur. Í júní síðastliðnum voru gistinætur alls rúmlega 263 þúsund og fækkaði þeim um 72 prósent frá sama mánuði í fyrra en þá voru gistinætur alls tæplega 943 þúsund. Af þeim voru gistinætur á hótelum og gistiheimilum alls tæplega 128 þúsund í mánuðinum og fækkar þeim um 78 prósent milli ára, úr rúmum 574 þúsundum.
Minni samdráttur varð í gistinóttum á gististöðum af öðrum tegundum. Aðrar tegundir skráðra gististaða eru tjaldsvæði, farfuglaheimili, orlofshús, skálar í óbyggðum, íbúðagisting, svefnpokagististaðir og heimagististaðir. Í júní nam heildarfjöldi gistinátta á þess konar gististöðum tæplega 136 þúsund. Samdrátturinn í þessum flokki dróst saman um 63 prósent en í sama mánuði í fyrra nam fjöldi gistinátta í flokknum rúmum 368 þúsundum.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, sem gefnar voru út fyrr í mánuðinum, er áætlað að gistinætur á hótelum í júlí hafi verið 269 þúsund. Í sama mánuði í fyrra voru þær tæplega 508 og samdrátturinn því áætlaður vera 47 prósent á milli ára.