Alls hefur 61 fyrirtæki óskað eftir að greiða til baka andvirði þeirra hlutabóta sem starfsmenn sömu fyrirtækja fengu greiddar þegar þeir voru í minnkuðu starfshlutfalli í vor. Stjórnvöld reikna með því að heildarendurgreiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar muni nema 306 milljónum þegar allt verður saman talið.
Þetta kemur fram í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins um stöðu helstu efnahagsaðgerða sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins.
Áður hafði komið fram hér á Kjarnanum að fjörutíu og fjögur fyrirtæki hafa þegar greitt bæturnar til baka og nema þær endurgreiðslur alls 210 milljónum króna. Stjórnvöld reikna því með tæpum 100 milljónum frá fyrirtækjunum 17 sem bætast við.
Beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna hlutabótaleiðarinnar nemur rúmum 18 milljörðum króna til þessa, en þegar mest var í aprílmánuði voru yfir 32 þúsund manns í minnkuðu starfshlutfalli. Hlutabótaleiðin var kynnt til sögunnar í mars og gat í fyrstu falið í sér að ríkið greiddi allt að þrjá fjórðu launa starfsmanna sem fyrirtæki þurftu að færa niður í minnkað starfshlutfall tímabundið.
Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að stefnt sé að birtingu á tölum um endurgreiðslur fyrirtækja þegar endurgreiðslunum er lokið. Hlutabótaleiðin rennur út núna í lok ágústmánaðar, að öllu óbreyttu.
Fjölmörg fyrirtæki gáfu það út opinberlega að þau ætluðu sér að endurgreiða hlutabæturnar, eftir að snörp gagnrýni kom fram í opinberri umræðu og frá stjórnmálamönnum í lok apríl á að stöndug fyrirtæki með styrkan efnahag væru að nýta hlutabótaleiðina, þeirra á meðal fyrirtæki sem væru búin eða hefðu í hyggju að greiða hluthöfum sínum arð á árinu.
Í lok maí birti Ríkisendurskoðun skýrslu um hlutabótaleiðina og framkvæmd hennar og kom þar fram sú túlkun að ekki yrði séð af lögunum um hlutabótaleiðina né af lögskýringargögnum að það hafi verið ætlunin að stöndug fyrirtæki myndu nýta sér leiðina.