Alþýðusamband Íslands leggur til að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar um 9,9 prósent upp í 318.250 kr., tekjutengdar bætur verði greiddar í sex mánuði frá fyrsta degi atvinnuleysis og að þak þeirra verði hækkað upp í 650.000 kr. á mánuði, auk þess sem þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði hækkað þannig að fyrri tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu, sem í dag nemur 335.000 kr., skerði ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
Þá leggur ASÍ til að hlutabótaleiðin verði framlengd í núverandi mynd fram á næsta sumar og að lenging bótaréttar verði lengdur um hálft ár, úr 30 mánuðum og upp í 36 mánuði.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í samþykkt frá miðstjórn ASÍ, en þar segir að við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði sé brýnna sem aldrei fyrr að gera umbætur á atvinnuleysistryggingakerfinu. Forða þurfi fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felist í atvinnumissi með því að tryggja afkomuöryggi þess og aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn.
ASÍ leggur einnig til að fjármagn til vinnumarkaðsaðgerða verði tryggt í fjármálaáætlun, svo halda megi úti vinnumarkaðsaðgerðum með þjónustu, stuðningi og námstækifærum fyrir atvinnuleitendur og sömuleiðis að lög um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð til að mæta betur möguleikum atvinnuleitenda til að nýta námsúrræði og önnur virkniúrræði sem eru í boði og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
Hvergi hafi gengið að „svelta fólk út af bótum“
„Atvinnuþátttaka er mjög há á Íslandi og atvinnuleysi alla jafna lágt. Engu að síður eru atvinnuleysistryggingar hér hærri en víða annars staðar. Þetta afsannar þá lífsseigu kenningu að atvinnuleysistryggingar séu letjandi til atvinnuleitar. Hvergi í heiminum hefur sú aðferð að svelta fólk út af bótum skilað árangri,“ segir í samþykkt miðstjórnar ASÍ, en þar segir einnig að skortur á afkomuöryggi geti verið mjög dýrkeyptur samfélagslega.
„Tekjufall einstaklinga hefur dómínó-áhrif á hagkerfið í heild sinni og getur leitt til þess að kreppan vegna COVID-19 verður dýpri og langvinnari en ella,“ segir í samþykkt miðstjórnarinnar.
Reikna má með að tekist verði á um atvinnuleysistryggingakerfið á vettvangi stjórnmálanna á næstunni, en Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði meðal annars í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi að honum hugnaðist ekki að ráðast í þá hækkun grunnatvinnuleysisbóta sem verkalýðshreyfingin hefur farið fram á. Frekar kæmi til greina í hans huga að framlengja tímabundið tekjutengingartímabil atvinnuleysisbótanna, sem er í dag þrír mánuðir. Forsvarsmenn ASÍ hafa í dag lýst yfir vonbrigðum með þessi orð ráðherra.
Guðrún Johnsen hagfræðingur og efnahagsráðgjafi VR fjallaði um atvinnuleysisbætur í erindi sínu á samráðsfundi stjórnvalda um lífið með veirunni fyrr í dag. Þar sagði hún að rannsóknir sýndu að hóflegar hækkanir atvinnuleysisbóta hefðu engin áhrif á atvinnuleysi, þar sem atvinnuleysistryggingar væru tímabundnar.
Í minnisblaði um tillögur ASÍ segir að atvinnuleysi hafi þegar verið vaxandi áður en heimsfaraldurinn skall á og að aukin hætta sé á langtímaatvinnuleysi nú. Því sé rétt að bæði hækka bæturnar, lengja tekjutengingartímabilið, minnka skerðingar og lengja bótatímabilið aftur í 36 mánuði, en það var stytt niður í 30 mánuði árið 2015.
„Mikil óvissa ríkir í atvinnulífinu og ákveðnar atvinnugreinar eru nánast óstarfhæfar. Ekki er hægt að segja við fólk að leggja harðar að sér í atvinnuleit við slíkar aðstæður, þegar engin störf er að hafa,“ segir í minnisblaði miðstjórnar ASÍ.