Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi og kosningastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir fjársvik. Bandaríska dómsmálaráðuneytið segir hann og þrjá aðra hafa stungið hluta framlaga í söfnun sem þeir stóðu fyrir í eigin vasa. Allur ágóði söfnunarinnar átti að renna beint í að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Alls söfnuðust um 25 milljónir dala frá hundruðum þúsunda stuðningsmanna.
Samkvæmt ákæru í málinu fékk Bannon sjálfur meira en eina milljón dala í sinn hlut og notaði allavega hluta þess fjár, hundruð þúsunda dollara, til þess að greiða fyrir sín persónulegu útgjöld. Einn samverkamanna hans, Brian Kolfage, er sagður hafa fengið meira en 350 þúsund dali í sinn hlut.
Söfnunin hófst undir slagorðinu „Við byggjum vegginn“ í desember árið 2018. Samkvæmt yfirlýsingu frá saksóknara í New York var fénu safnað á þeim fölsku forsendum að það myndi renna milliliðalaust í það að byggja landamæravegginn. En svo var ekki.
Samkvæmt frétt New York Times um málið reyndu mennirnir fjórir að fela ólöglegt peningaflæði söfnunarinnar með því að notast við góðgerðafélag undir stjórn Bannons og skúffufyrirtæki eins annars sakbornings í málinu.
Bannon á að koma fyrir dómara í New York vegna þessa máls síðar í dag. Hvíta húsið hefur ekki viljað tjá sig um þetta, en Bannon var aðalráðgjafi Trumps í upphafi forsetatíðar hans og tók einnig sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, en yfirgaf Hvíta húsið í ágúst árið 2017.