Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram drög að lagafrumvarpi sem er ætlað að styrkja tjáningarfrelsið með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum.
Efnislega samhljóða frumvarp var lagt fram sem stjórnarfrumvarp á þingi í vor, en ekki afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd. Nú er það komið aftur í samráðsgátt stjórnvalda og verður þar til umsagnar til 2. september.
Helstu lagabreytingarnar sem felast í frumvarpinu eru þær að þeir aðilar sem fara til sýslumanns og óska þess að lögbann verði sett á birtingu efnis þurfi ætíð að leggja fram tryggingu til bráðabirgða. Þannig hefði Glitnir HoldCo til dæmis þurft að leggja fram tryggingu þegar þrotabúið setti fram lögbannskröfu á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um viðskipti Bjarna Benediktssonar og skyldmenna hans í aðdraganda bankahruns.
Einnig er lagt til að frestir við meðferð sýslumanns á lögbannsmálum verði takmarkaðir eins og kostur er og eingöngu veittir í undantekningartilfellum og að staðfestingarmál í kjölfar lögbannsmála fari eftir ákvæðum um flýtimeðferð einkamála, „eftir því sem við á“.
Slík mál eiga það til að dragast verulega, eins og dæmin sýna, en lögbanni á umfjöllun Stundarinnar, sem sett var á tveimur vikum fyrir alþingiskosningarnar kosningarnar í október árið 2017. Málinu var ekki endanlega lokið fyrr en Hæstiréttur kvað upp dóm í mars árið 2019 og hafði öllum kröfum Glitnis HoldCo þá verið hafnað á þremur dómstigum.
Bætur gætu orðið hærri
Í frumvarpinu er einnig lagt til að strangari bótareglur verði í slíkum lögbannsmálum og að dómara verði heimilt að dæma bætur að álitum vegna tjóns sem verður við það að birting efnis er hindruð vegna lögbanns eða beiðni um það.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir um síðastnefnda atriðið að sé lögbanni hnekkt að lokum fyrir dómi, skuli sá sem fór fram á lögbannið bæta miska og fjártón sem stafaði af beiðni hans, þar á meðal spjöll á lántrausti og viðskiptahagsmunum. En dómurum er líka ætlað að meta tjónið sem erfitt getur verið að festa nákvæmlega í krónur og aura og gæti slíkt leitt þess að bætur verði hærri.
„Ljóst er að erfitt getur verið að meta það tjón sem af slíku lögbanni hefur hlotist. Getur verið torvelt að áætla tapaðar auglýsingar eða eftir atvikum hversu mörg eintök fjölmiðill kunni að hafa selt eða miðlað hefði lögbanni ekki verið komið á. Hér er því lagt til að dómari meti að álitum það tjón sem af slíku hefur hlotist takist ekki sönnun um fjárhæð þess,“ segir í greinargerðinni.