Yfir hundrað störf gætu skapast í Reykjanesbæ ef af verður af fyrirhugaðri uppbyggingu skipaþjónustuklasa í Njarðvík. Einnig hefur bærinn samþykkt að heimila rannsóknarvinnu á kolefnisförgun á vegum Carbfix í nágrenni Helguvíkurhafnar, en hún telur slíka aðferð geta orðið áhrifaríkt verkfæri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í framtíðinni.
Bækistöð fyrir skipaviðgerðir í Norður-Íshafi
Samkvæmt fréttatilkynningu Reykjaneshafnar sem kom út fyrr í dag hefur Reykjanesbær skrifað undir viljayfirlýsingu, auk Reykjaneshafnar og Skipasmíðastöð Njarðvíkur um uppbyggingu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík. Markmiðið með uppbyggingunni sé að mynda sterkan grunn að uppbyggingu skipaþjónustuklasa.
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, segir starfsstöð sem þessa koma til með að mynda yfir hundrað störf á svæðinu. „ Allt að 80 bein heilsársstörf myndu skapast auk fjölda óbeinna starfa. Það er okkar von að höfnin verði að bækistöð fyrir skipaviðgerðir í Norður-Íshafi,“ segir Halldór í fréttatilkynningunni.
Verkfæri gegn loftslagsbreytingum
Til viðbótar við uppbyggingu skipaþjónustuklasa hafa Reykjaneshöfn og Reykjanesbær heimilað framkvæmd rannsókna og þróunar á kolefnisförgun á vegum fyrirtækisins Carbfix. Verkefnið verður á hafnarsvæði Helgavíkurhafnar og mun rannsóknartími þess standa til ársins 2024.
Samkvæmt bókun stjórnar Reykjaneshafnar telur hún aðferðirnar geta orðið áhrifaríkt verkfæri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í framtíðinni. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti svo bókunina í fundi fyrr í dag.
Starfsemi Carbfix verður til umfjöllunar í næsta tölublaði Vísbendingar sem kemur út á morgun, en þar halda sérfræðingar á vegum fyrirtækisins því fram að Ísland gæti orðið miðstöð fyrir kolefnisförgun á heimsvísu í framtíðinni.