Landsvirkjun skilaði 5,6 milljarða króna hagnaði á fyrri árshelmingi, en hann er tæpum fjórum milljörðum krónum minni en á sama tímabili í fyrra. Forstjóri fyrirtækisins segir horfur í rekstrarumhverfi óvissar og miðist að miklu leyti við það hvernig tekst að fást við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Landsvirkjun gaf út fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni er afkoma fyrirtækisins lituð af erfiðu efnahagsástandi í heiminum, en heimsfaraldurinn er þar sagður hafa valdið samdrætti í eftirspurn hjá helstu viðskiptavinum fyrirtækisins á tímabilinu.
Til marks um minnkandi orkueftirspurn nefnir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar að verð á Nord Pool-orkumarkaðnum hefur lækkað um 75% á fyrstu sex mánuðum ársins. Einnig hefur eftirspurnarlækkun á áli haft áhrif á minni eftirspurn á orku hjá Landsvirkjun, en meðalálverð lækkaði um 13% á tímabilinu.
Svipaður hagnaður og árið 2017
Hagnaður Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins nemur um 5,6 milljörðum króna og er hann töluvert minni en hann var á sama tímabili síðustu tvö árin. Í fyrra nam hagnaðurinn um 9,4 milljörðum króna en árið 2018 nam hann um 7,5 milljörðum króna. Hagnaðurinn í ár er þó á svipuðum slóðum og árið 2017 og nokkru hærri en á fyrri árshelmingi 2016.
Mikil óvissa hefur verið um framtíð álvers Rio Tinto í Straumsvík, sem er einn af stórkaupendum orku hjá Landsvirkjun. Eigendur álversins hafa sagt til skoðunar að hætta rekstri á Íslandi vegna ósamkeppnishæfs orkuverðs, en álverið sótti þó um nýtt starfsleyfi, líkt og Kjarninn greindi frá í gær.