Stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) lýsir yfir furðu sinni vegna þeirrar ákvörðunar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra að stefna Hafdísi Helgu Ólafsdóttur skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu fyrir dóm til þess að freista þess að hnekkja niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála um að ráðherra hafi brotið jafnréttislög við skipun í embætti ráðuneytisstjóra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef FHSS í dag, en greint var frá því að Lilja hefði stefnt Hafdísi til að reyna að fá úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt seint í júní. Kærunefnd jafnréttismála hafði áður komist að þeirri niðurstöðu í byrjun júní að Lilja hefði brotið gegn jafnréttislögum er hún skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Lilja sagðist hafa tekið þá ákvörðun að stefna Hafdísi á grundvelli lögfræðiálita sem ráðuneyti hennar aflaði vegna málsins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur neitað að gera þau opinber.
„Engin dæmi eru um að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn starfsmanni ríkisins sem hefur ekkert sér til saka unnið annað en að sækja um starf sem hann fékk ekki og kært þá niðurstöðu eins og heimilt er lögum samkvæmt. Slíkri málshöfðun fylgir gríðarlegur kostnaður svo ekki sé talað um hversu íþyngjandi það er fyrir félagsmanninn að þurfa að standa í slíkum málaferlum næstu misserin,“ segir í yfirlýsingu stjórnar FHSS.
Starfsmaðurinn í fordæmalausri stöðu gagnvart ráðherra
Þar er einnig sagt „óskiljanlegt“ að ráðherra hafi ákveðið að stefna Hafdísi persónulega fyrir dóm, þar lagabreytingatillaga liggi nú þegar í samráðsgátt stjórnvalda sem kemur í veg fyrir að félagsmanni einum verði stefnt fyrir dóm, en sú lagabreytingartillaga var lögð fram í sumar, eftir að málið kom upp.
„Fyrrgreind málshöfðun getur haft það í för með sér að umsækjendur veigri sér við að sækja lögvarinn rétt sinn. Auk þess að setja félagsmanninn í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra er hætt við að stefnan muni fæla hæfa umsækjendur frá því að sækja um störf hjá ríkinu,“ segir enn fremur í yfirlýsingu stjórnarinnar.