„Eins og alltaf er verið að hamra á mikilvægi þess að hver og einn sinni persónulegri smitgát þá er aldrei of oft komið inn á það og ekki gleyma því að þeir sem hafa verið að veikjast er fólk sem hefur talið sig vera í öruggum aðstæðum – og það hefur ekkert verið í umhverfinu sem gefur til kynna að COVID sé á næsta leiti eða kórónuveiran.“
Þetta sagði Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann benti enn fremur á að sjá mætti gríðarleg dómínóáhrif af einu smiti, bæði í því hversu margir væru að smitast og færu í sóttkví.
Sex ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, öll hjá sýkla- og veirufræðideild sem greindi alls 291 sýni. Hlutfall jákvæðra sýna var því rétt rúmlega tvö prósent. Fimm af þeim sem greindust með kórónuveiruna í gær voru í sóttkví. Í einangrun eru nú 117 en voru 115 í gær. Fjöldi einstaklinga í sóttkví er nú 919 en í gær voru 850 í sóttkví. Einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi líkt og í gær, þó ekki á gjörgæslu.
„Lögreglan er að sinna eftirliti með þessu á opinberum stöðum og það er verið að passa upp á að fólk sinni smitgátinni og að tveir metrarnir séu í boði. En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það alltaf við sjálf sem höfum ákveðinn atkvæðisrétt í þessu með því að láta ekki bjóða okkur upp á að vera í aðstæðum sem okkur eru ekki tryggðir þessir tveir metrar og þetta pláss sem við teljum okkur þurfa að hafa,“ sagði Rögnvaldur á fundinum.
Þá væri best að fara úr aðstæðunum ef fólk treystir sér ekki til þess að vera í þeim. Hann áréttaði að veiran væri alls staðar á sveimi.