Hlutabótaleiðin verður framlengd í tvo mánuði og réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fer úr þremur mánuðum í sex að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá munu greiðslur til einstaklinga í sóttkví halda áfram, en sækja þarf sérstaklega um þær.
Þetta er innihald frumvarps Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun.
Engar efnislegar breytingar verða gerðar á framkvæmd hlutabótaleiðarinnar og áfram verður hægt að sækja um að atvinnuleysistryggingasjóður greiði allt að 50 prósent af launum þeirra starfsmanna sem settir verða á hana, líkt og verið hefur undanfarna mánuði. Til að byrja með, þegar flest fyrirtæki nýttu sér leiðina, var hlutfallið 75 prósent.
Þegar mest var, í apríl, nýttu 33.637 manns hlutabótaleiðina. Í júlí var sú tala komin niður í 3.862 sem leiddi af sér 300 milljóna króna kostnað, samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra dagsett 14. ágúst sem lagt var fyrir ríkisstjórn fyrr í mánuðinum. Þar segir að búast megi við því að tæplega helmingur þeirra sem nýttu úrræðið í júlí hafi gert það í ágúst.
Framlenga tekjutengingu og laun í sóttkví
Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021. Frumvarp Ásmundar Einars á enn eftir að fara í gegnum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna áður en mælt verður fyrir því á þingi.
Þá verða tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.
Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var 21. mars var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna launagreiðslna í sóttkví yrði um tveir milljarðar króna og að hægt væri að sækja um slíkar greiðslur.
Í áðurnefndu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, kom fram að alls hafi verið greiddar út 191 milljón króna vegna launa fólks sem þurft hefur að fara í sóttkví. Því hefur nýting á úrræðinu verið undir tíu prósent af því sem reiknað var með.