Ríkisstjórnin mun kynna áframhaldandi fjárfestingarátak samhliða fjárlögum og fjármálaáætlun nú í haust. Þetta kom fram í munnlegri skýrslu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um stöðu mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Fyrsti þingfundur á svokölluðum þingstubbi hófst á munnlegri skýrslu forsætisráðherra.
Í ræðu sinni nefndi hún sérstaklega umfangsmiklar fjárfestingar sem hófust á árinu 2020, þar sem ríkisstjórnin hefði beitt „krafti ríkisfjármálanna til að skapa störf og fjárfesta í ólíkum verkefnum, hvort sem það eru grænar lausnir, samgöngumannvirki, grunnrannsóknir, nýsköpun, stafræn þróun, skapandi greinar og byggingarframkvæmdir,“ sagði Katrín. Hún sagði að áframhaldandi fjárfestingarátak verði kynnt samhliða fjárlögum í haust þar sem „afli ríkisfjármálanna“ verði beitt með svipuðum hætti til að auka verðmætasköpun.
Opnanir skóla samfélagslega mikilvæg ráðstöfun
Katrín sagði Ísland skera sig úr í skólamálum ásamt Svíþjóð í samanburði við önnur ríki þegar kemur að skólamálum vegna þess að hér eru leikskólar og grunnskólar opnir. Hún sagði lokanir skóla í Evrópu hafa veruleg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif sem og áhrif á menntun barna.
„Sömuleiðis má segja að sú aðgerð og ákvörðun að halda skólum opnum hafi verið ein mikilvægasta samfélagslega aðgerð sem stjórnvöld gripu til til að mæta þessum faraldri. Sömuleiðis hefur verið gripið til umfangsmikilli efnahagslega ráðstafana sem ég ætla ekki að telja hér upp en megin leiðarljósið hefur verið að verja störf, skapa störf og tryggja afkomu,“ sagði Katrín.
Sveigjanleiki og seigla
„Ég held að við sem hér erum í þessum sal getum öll verið sammála um að íslenskt samfélag hefur sýnt í senn sveigjanleika og seiglu bæði við að komast út úr fyrstu bylgju faraldursins en líka núna þegar við stöndum í annarri bylgjunni miðri,“ sagði Katrín í ræðustól Alþingis um viðbrögð þjóðarinnar við faraldrinum. Hins vegar hafi farið mikil umræða um hvernig best sé að takast á við útbreiðslu faraldursins sem, að hennar mati, sé gott.
Þá fór Katrín yfir það hvernig skimunum hefur verið háttað á landamærum frá 15. júní. Sú ráðstöfun hefur sannað gildi sitt að mati Katrínar og komið í veg fyrir að fjöldi smiti hafi borist inn í landið. Þar að auki hefur landamæraskimunin gefið mikilvægar upplýsingar um veiruna.
Halda þarf áfram að vinna að hagrænum greiningum
Nýlega var svo hert á aðgerðum á landamærum eins og kunnugt er. Þetta var gert að fengnum tillögum frá færustu vísindamönnum að sögn Katrínar. Hún sagði mikið hafa verið rætt um hagræn áhrif þessarar tilhögunar. Hagræn áhrif hafi verið metin í aðdraganda hertra aðgerða og sú greining hafi verið uppfærð með tilliti til reynslunnar.
„Þar þarf þó að vinna áfram að hagrænum greiningum því þetta er flókið viðfangsefni. Ég hlýt þó að segja hér að þær ferðatakmarkanir sem ákveðnar eru hér á landi eru að sjálfsögðu ekki það eina sem ræður fjölda ferðamanna. Þar skipta ferðatakmarkanir annarra ríkja einnig máli, þar sem ísland hefur verið að færast nær rauðum lista annarra ríkja eða beinlínis lent þar inni. Sömuleiðis hefur ferðavilji fólks dregist saman eðlilega,“ sagði Katrín um hagræn áhrif aðgerða á landamærum og ferðavilja fólks. Samdráttur ferðafólks sé mikill í heiminum öllum en heildarfækkun millilandafarþega verði á bilinu 58-78 prósent í ár samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem Katrín vitnaði í í ræðu sinni.
„Það er mikilvægt að við styðjum við þessi fyrirtæki en líka mikilvægt að við horfum til framtíðar því ég er ekki í nokkrum vafa um að þar mun ísland eiga mikil sóknarfæri bæði vegna okkar einstöku náttúru en líka vegna þeirrar faglegu ferðaþjónustu sem hér hefur byggst upp,“ sagði Katrín í kjölfarið um stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Þá benti Katrín á að harðar sóttvarnaráðstafanir skili ekki endilega miklum samdrætti. Þannig sé samdrátturinn í Svíþjóð, sem gengið hefur vægast fram af Norðurlöndunum í sóttvarnaráðstöfunum, meiri en í Danmörku og Finnlandi. Þá er samdráttur á öðrum ársfjórðungi í Bretlandi um 20 prósent. „Þannig að það er ekki ofsögum sagt að við stöndum frammi fyrir líklega dýpstu efnahagslægð í heila öld,“ sagði Katrín.
Umræðan um borgaraleg réttindi mikilvæg
Að lokum fór Katrín yfir borgaraleg réttindi fólks sem hún sagði vera mikilvæga umræðu enda alveg ljóst að sóttvarnaráðstafanir hafi haft áhrif á þau réttindi. Hún vakti athygli þingmanna á því að á að á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra sem lagt verður fram við þingsetningu þann 1. október verður að finna frumvarp um endurskoðun sóttvarnalaga og Alþingi muni þá fá tækifæri til að fjalla um valdheimildir þeirra laga.
„Það skiptir máli að við ræðum hin borgaralegu réttindi í samhengi. Það hversu hratt fólk kemst yfir landamæri íslands er ekki það eina sem máli skiptir. Það þarf að líta til skólastarfs, til menningar og íþróttastarfs. Það þarf að líta til þess að hér voru í vor settar alveg gríðarlega umfangsmiklar hömlur á atvinnuréttindi þúsunda manna og gleymum ekki þeim takmörkunum sem hafa verið settar á réttindi eldra fólks, þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum og þeirra sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum sem hafi í raun og veru búið við verulega félagslega einangrun allt frá því að faraldurinn skall á,“ sagði Katrín um þær hömlur sem fólk hefur búið við í faraldrinum.
Í kjölfarið vitnaði hún til reglu sem John Stuart Mill setti fram í bók sinni, Frelsið, að einungis væri heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklings ef um sjálfsvörn væri að ræða. „Ætli hún eigi ekki svo sannarlega við hér í þessu tilfelli þegar við ræðum um þennan heimsfaraldur,“ sagði Katrín.