„Mér finnst mikilvægt að hér á landi sé starfandi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst það mikilvægt. Mér finnst það mikilvægt að hér sé til staðar flugfélag sem getur gegnt lykilhlutverki í að endurræsa ferðaþjónustu. Mér finnst það mikilvægt leiðarljós.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata telur að afstaða ráðherra hafi breyst varðandi ríkisábyrgð síðan í vor og spurði hún hvers vegna svo væri.
„Í upphafi þeirra efnahagsþrenginga sem nú blasa við virtist ríkisstjórnin ekki æst í að koma Icelandair til hjálpar og má þar meðal annars vísa í orð hæstvirts forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, í viðtali á Bylgjunni í maí þar sem hún sagði: „Icelandair hefur farið í það verkefni að safna nýju hlutafé og við höfum sagt að við styðjum þá vegferð. Ef hún gengur upp er ríkið reiðubúið að koma með lánalínu eða einhvers konar ríkisábyrgð.“ Af þessu mátti ráða, í maí að minnsta kosti, að ráðherrann setti það skilyrði fyrir ríkisábyrgð að félaginu hefði tekist það ætlunarverk sitt að auka hlutafé sitt. En nú er staðan önnur og lánalína er í boði þrátt fyrir að hlutabréfaútboð hafi einu sinni átt sér stað,“ sagði Þórhildur Sunna.
Tók ekki eftir neinum andmælum frá ráðherra þegar Icelandair sagði upp flugfreyjum
Þórhildur Sunna spurði því hvað hefði breyst í afstöðu forsætisráðherra á þessum tíma. „Hvers vegna er núna ásættanlegt að veita ríkisábyrgð þessa lánalínu án þess að hlutafjárútboð hafi farið fram? Ég sé ekki að nokkuð hafi breyst í stöðu félagsins nema reyndar að það hefur notið ríkulegs ríkisstuðnings í formi uppsagnarleiðarinnar og hlutabótaleiðarinnar. Og jú, reyndar hefur það breyst að félaginu tókst að semja um ríflega kjaraskerðingu flugfreyja og flugliða með mjög óvönduðum og jafnvel ólöglegum hætti.“
Hún sagði að hún hefði ekki tekið eftir neinum andmælum frá forsætisráðherra þegar Icelandair sagði upp öllum sínum flugfreyjum á einu bretti og hótaði að semja við annað stéttarfélag. Hún hefði aftur á móti tekið eftir viðbrögðum ráðherrans „þegar kúgunarverknaðurinn var innsiglaður með samningum við flugfreyjur“. Þórhildur Sunna spurði því forsætisráðherrann hvort það hefði verið fullnaðarsigur Icelandair yfir kjarabaráttu flugfreyja sem breytti afstöðunni gagnvart ríkisábyrgð.
Skilyrðin alveg ljós frá upphafi
Katrín svaraði og byrjaði að nefna frumvarp sem lægi fyrir í þinginu og yrði til umræðu seinna í dag um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair sem háð væri ákveðnum skilyrðum. „Þau skilyrði hafa verið alveg ljós frá því í vor og ekkert hefur breyst í því verkefni. Það er að segja ríkið hefur allan tímann lagt áherslu á það að félagið ráðist sjálft í fjárhagslega endurskipulagningu, að félagið ljúki sjálft sínum kjarasamningum, samningum við hluthafa, lánardrottna og ljúki við hlutafjárútboð eigi að koma til slíkrar ríkisábyrgðar á lánalínu – að af henni verði. Og það frumvarp sem hér liggur fyrir snýst fyrst og fremst um heimild til fjármála- og efnahagsráðherra til þess að veita slíka ábyrgð svo fremi sem þetta gangi eftir.“
Hún sagði að þetta verkefni hefði frá upphafi byggt á ákveðnum leiðarljósum um að það væri mikilvægt að hér á landi væri íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi og sem væri starfandi á íslenskum vinnumarkaði. „Að flugfélag sé hér starfandi sem geti verið mikilvægur aðili í efnahagslegri viðspyrnu, ekki síst ferðaþjónustunnar á Íslandi. Þannig að þessi leiðarljós hafa legið fyrir frá upphafi og það frumvarp sem hér liggur fyrir í þinginu er mjög eðlilegt framhald af þeirri yfirlýsingu sem gefin var í vor.“
Varðandi kjarasamninga flugfreyja við Icelandair sagði Katrín að hún væri þeirrar skoðunar að slíkar deilur ætti að leysa við samningaborðið og að henni hefði fundist mjög jákvætt að deilan hefði verið leyst þar.
„En já, mér finnst eðlilegt að vinnudeilur leysist við samningaborðið og að báðir aðilar eigi að leggja sitt að mörkum til þess að svo verði,“ sagði hún.
Skiptir það máli hvernig samningum er náð?
Þórhildur Sunna tók aftur til máls og spurði hvort það skipti máli hvernig deilur væru leystar við samningaborðið. „Skiptir það engu máli hvernig þessum samningum var náð? Hvaða aðferðum var beitt?“ spurði hún.
Hún sagði að verk ríkisstjórnarinnar birtust henni þannig að Icelandair hefði tekist að spara sér fjármuni með „bolabrögðum og árás á grunnstoðir vinnuréttar á Íslandi. Og þau eru verðlaunuð með ríkisábyrgð. Þannig horfir þetta við mér.“
Hún spurði hvernig forsætisráðherrann túlkaði þær gjörðir Icelandair að segja upp öllum flugfreyjum og hóta því að semja við ótilgreint stéttarfélag í staðinn. Láta flugmenn jafnvel ganga í þeirra störf til að ná árangri í stéttabaráttu. Fyndist ráðherra það ásættanleg aðferðafræði við samningaborðið. „Er það eitthvað sem á að verðlauna með ríkisstuðningi?“ spurði hún að lokum.
Mikilvægt að flugfélag sé til staðar sem getur gegnt lykilhlutverki í að endurræsa ferðaþjónustu
Katrín kom aftur í pontu og sagði að hún greindi það á orðum Þórhildar Sunnu að hún og hennar flokkur hefði væntanlega efasemdir um frumvarpið sem lægi fyrir um veitingu ríkisábyrgðar.
„Ég vil bara minna háttvirtan þingmann á að þarna hefur ríkisstjórnin frá upphafi lagt fram þessi skýru leiðarljós sem ég fór yfir hér áðan. Og við getum verið sammála eða ósammála um þau leiðarljós. Mér finnst mikilvægt að hér á landi sé starfandi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst það mikilvægt. Mér finnst það mikilvægt að hér sé til staðar flugfélag sem getur gegnt lykilhlutverki í að endurræsa ferðaþjónustu. Mér finnst það mikilvægt leiðarljós. Ég veit ekki hvað háttvirtum þingmanni finnst. Mér finnst það vera mikilvægt leiðarljós eins og komið hefur fram í kynningu á þessu máli að við hins vegar gætum að almannahag og almannafé með því að hafa þessar skýru girðingar sem lagt er hér til. Það er að segja að félagið ljúki sjálft sinni fjárhagslegu endurskipulagningu, safni sjálft hlutafé og ríkið sé þar fyrst og fremst í stuðningshlutverki.“